Keyptum hús í Kópavoginum!!
Uppfærsla: Þetta var apríl-gabbið í ár! (April-fools!) (PS. Ekkert af göllunum sem við lýsum á við um þetta hús, af myndunum að dæma hefði ég verið til í að flytja inn í nýverandi ástandi og gera ekkert við húsið) 🙂
Eftir mikla leit erum við loksins búin að festa kaup á húsnæði við Bollasmára 8 í Kópavoginum. Við skoðuðum í gær (með Önnu með okkur hálf-veika) og sendum inn tilboð í dag. Fasteignasalinn hringdi í kvöld til að segja að tilboðinu hefði verið tekið um kvöldmatarleytið. Fyndið að eiga við þessa fasteignasala, en það er annað mál og efni í aðra bloggfærslu (segi frá því síðar).
Bollasmári
Við ákváðum, eftir að hafa skoðað 20 eignir, að taka aðeins dýrari eign en við ætluðum okkur í fyrstu, þar sem úrvalið af eignum í “okkar” verðflokki hefur ekki verið beysið, allavega ekki sem við töldum að hentaði okkur. Við náðum þó að slá af nokkrar milljónir af ásettu verði, enda ekki margir að kaupa stórar eignir í dag.
Það er töluverður léttir að komast loksins úr leiguíbúðinni okkar og yfir í okkar eigið húsnæði í fyrsta skipti. Það er þó töluvert sem þarf að gera fyrir húsnæðið, eins og sjá má á (sumum) myndum…
Það þarf að taka þakskeggið í gegn og skipta um járn í þakinu.
Hér þarf líklega að skipta út flísum, fá stærra baðkar (ég er 1.92cm) og fá ný blöndunartæki. Og gera við smá leka í lofti.
Hrefna vill fá kork á gólfið í eldhúsinu, svo að hlutir séu ekki alltaf að brotna þegar þeir detta á gólfið. Hún fékk það í gegn, gegn því að ég fengi að skipta um innréttingu (skil ekki þetta bláa dæmi sem virðist vera í tísku núna). Ef einhvern vantar innréttingu, þá getuð við örugglega samið ef hún næst af veggnum heil.
Þetta herbergi fær að halda sér að mestu óbreyttu, enda kemur þetta vel út. Sé mig vel fyrir mér að vinna hér. Það er einhver smá leki í gegnum vegginn við gluggann (sést ekki vel á mynd), en það ætti ekki að vera of mikið mál að komast fyrir það, eftir því sem fróðir menn segja mér.
Svo eru fleiri myndir á fasteignavefnum, sem ég á á diski en nennti ekki að skella inn (get sent ykkur, þeir fara væntanlega að taka auglýsinguna út af vefnum bráðlega).
Nú er bara spurning hvort fólk sé ekki tilbúið að hjálpa okkur að flytja og kannski innrétta fyrst? Hvað segið þið, fjölskylda og vinir?
COMMENTS