Minna stress, en “Hvað næst?”
Ahhhhhh… það var gott að vakna síðasta laugardag og finna hvað ég var miklu minna stressuð en undanfarnar vikur. Það var líklega gott að ákveða með 6 vikna fyrirvara að verja, því ef það hefði verið lengri fyrirvari (með dagsetningu og alles) þá hefði ég líklega gengið af göflunum. Ekki það að vörnin sjálf hafi verið svo slæm – þetta var eftir allt saman bara einn fyrirlestur, nokkrar spurningar frá vinveittum áhorfendum, aðeins fleiri spurningar frá færri en einnig vinveittum áhorfendum og svo var það búið – en eftir að hafa miklað þetta fyrir mér í mörg ár þá var andlegi þröskuldurinn nokkuð hátt stilltur.
Ég stend samt við það að hver sem hefur unnið við eitthvað í fimm ár eða svo eigi skilið að fá gráðu. Finnst skrítið að bara ákveðið fólk í ákveðnum stöðum fái prófskírteini. Hver dreymdi upp það kerfi? Reyndar er ég ekki komin með neitt prófskírteini ennþá – á eftir að klambra saman mörgum orðum og myndum, svo ekki sé minnst á eitt eða tvö útistandandi tæknileg atriði sem þarf að fínpússa. En við erum samt farin að leiða hugann að “Hvað næst?”.
Og það er stóóór spurning. Ég hafði alltaf séð fyrir mér að flytja beint til Íslands að námi loknu en núna er Ísland orðið eitt stórt spurningamerki. Þegar maður lítur á vanhæfni/ráðaleysi helstu ráðamanna (og kvenna) þá get ég ekki neitað því að hafa smávægilegar áhyggjur af því að það verði ekkert “Ísland” til að ári, amk ekki eins og við þekkjum það. Það er líka ómögulegt að spá fyrir um atvinnuástandið, þó svo að mér hlýni um hjartarætur þegar fólk talar um sprotafyrirtæki (ó, Björk! 🙂 og að virkja mannaflið.
Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hefur landsmottóið hins vegar alltaf verið “Þetta reddast!” – þannig er bara þjóðarsálin. (Landsmottó númer tvö er “Allir gera/hegða/klæða/kaupa alveg eins!”) Ég man hins vegar eftir miklum taugatitringi í æsku í hvert sinn sem ég heyrði “Þetta reddast!” (“Hvernig geturðu verið viss?!”) og þó svo að ég þykist vera meira “zen” (yfirvegaðari?!) á mínum “eldri” árum, og farin að “trúa” að einhverju marki sanngildi “Þetta reddast!”, þá veit ég ekki hvort ég sé tilbúin í þjóðfélag sem er á algjöru blússandi “Þetta reddast!” spani.
Niðurstaðan í bili er því sú að óvissan ræður og við vitum ekki “Hvað næst?”. Það verður ekki tekin nein ákvörðun um það fyrr en næsta vor, líklega ekki fyrr en í maí. Það væri yndislegt að flytja heim til Íslands, en í öðru sæti væri að prófa Evrópupakkann. Hver veit nema Finnur geti flutt sig um set innan Gúgul og ég elt í humátt? Það er víst komið að mér að elta, enda búin að láta elta mig heldur lengi.
Í þriðja sæti er að vera hérna úti í Kalí í eitt ár í viðbót, en ég er ekki mjög spennt fyrir því. Mig langar í “eðlilegan” tímamismun (átta tímar eru ALLT of mikið) og “eðlilegan” ferðatíma á heimaslóðir (tæpur sólarhringur er ALLT of mikið) enda hundfúlt að get ekki farið í helgar- og/eða vikuheimsóknir. Lágmark á Íslandi héðan eru 3 vikur og þar með er bandaríska sumarfríið löngu uppurið. Í fjórða sæti er austurströnd Bandaríkjanna, en ég er ekki viss um að ég sé mjög spennt fyrir veðurfarinu þar né stóru borgunum.
Við sem sagt vitum ekki hvert stefnir. Ég veit ekki einu sinni hvað ég vil vinna við “þegar ég verð fullorðin” – það er útskrifast. Þetta blessaða doktorsnám var aldrei leið til að ná einhverju ákveðnu takmarki eða atvinnu, heldur meira eitthvað sem gerðist. Það var hreinlega minna vesen að halda áfram eftir masterinn heldur en að pakka saman og flytja heim. Ég er ekki að kvarta, langt því frá. Við höfum haft það mjög gott hérna úti, þetta er eðal staður til að búa á (mínus fjarlægð frá fjölskyldu og vinum) sérstaklega fyrir nörda eins og okkur. Þetta er hins vegar að “verða gott” og kominn tími á nýjan kafla. Hann er bara óskrifaður ennþá.