5 ára skoðun
Ég fór með Önnu í fimm ára skoðun í morgun. Anna mældist 121 cm (47.75 inches, 99%) og 23 kg (50 lbs, 92%). Sjón og heyrn mældust eðlileg og lækninum leist bara vel á það sem hún sá. Í verðlaun fyrir góða hegðun fékk hún svo fjórar bólusetningarsprautur og muldraði “ái” við þremur þeirra. Það er svona þegar hjúkkan mútar manni með því að segja að aaaaaallir krakkarnir í kindergarten (0. bekk) séu búnir að fá sprautur.
Ég náði að krafsa aðeins í ritgerðina eftir hádegi, en held að ég hafi ofgert mér í myndasíðum undanfarna daga því að hendurnar eru aftur orðnar aumar. Nú er stefnt á að taka betri tölvupásur á kvöldin.
Það gekk vel að taka pásu í kvöld því við fengum Úlfar í mat og eyddum kvöldinu í spjall. Hann er nýkominn hingað út til að vinna eftir að allt ruglið skall á Íslandi. Það lítur út fyrir að Lotta sé að flytja hingað út líka með börnin, en ekkert er slegið í stein ennþá. Þau bjuggu lengi vel uppi í borg en fluttu heim fyrir rúmlega ári síðan.
Hann fyllti inn í margar eyður um það sem hefur verið að gerast á Íslandi undanfarið, enda við ekki alveg með fingurna á púlsi þjóðarinnar. Við reynum að fylgjast með fréttum, en Mbl og Visir eru vitagagnslausir miðlar – svo vitagagnslausir að ég ætla ekki einu sinni að gera þeim þann greiða að hlekkja á þá! Úlfar er annars mjöööööög svartsýnn á framtíðina og fyrir honum er besta langtímalausnin á stjórnaróráðinu sem hlýst af fámenninu að Ísland verði að sýslu í Noregi…
Sem fyrr stöndum við okkur að því íhuga “hvað næst?” en það er lítið vit í því sem stendur – og hananú! Svona, sussss… ekki hugsa!