Bæbæ stjórn
Ný vika, fleiri Íslandsfréttir. Við uppgötvuðum í morgun að stjórnarsamstarfi hefði verið slitið á Íslandi á meðan við sváfum. Ég held að ég sé ánægð með það, því að ég hef ekkert lesið eða heyrt frá fráverandi stjórn sem gaf til kynna að nokkur þar hefði hugmynd um hvað hefði gerst, hvað væri í gangi og hvað ætti að gera næst. Eða öllu heldur, ef stjórnarmeðlimir voru með á nótunum allan þennan tíma, þá voru þeir ekkert að segja hinum almenna íbúa frá því.
Hér og þar hef ég séð að fólk telji að Jóhanna Sigurðardóttir taki við sem forsætisráðherra. Þar sem ég hef ekki búið á landinu í átta ár, þá hef ég enga sérstaka skoðun á því. Það eina sem ég veit er að alla helgina hefur setningin “minn tími mun koma” verði að poppa upp í hausnum á mér, og það var áður en ég frétti af núverandi vinsældum Jóhönnu. Ætli hún hafi ráðið miðla til að kynda upp í andlegum heimum?! 🙂
Það verður amk áhugavert að sjá hvort eitthvað breytist ef vinstri fólk kemst til valda, amk fram á næstu kosningar. Í einfeldni minni þá hef ég í mörg ár túlkað hægri og vinstri á eftirfarandi máta: hægri fólk vinnur fyrir þá sem eiga peninga, vinstri fólk vinnur fyrir þá sem eiga ekki peninga. Þannig vinnur hægra fólk að lækkun skatta, svo ríkt fólk haldi eftir meiri pening – en vinstra fólk að eflingu félagskerfisins, og borgar fyrir það með hærri sköttum.
Ég skil stjórnmálakerfið því þannig að með því að etja saman hægri og vinstri sé verið að leita að jafnvægispunkti, þar sem fólk borgar í sameiginlegan sjóð en á samt nóg til að fæða sig og klæða. Undanfarin ár virðist mér hins vegar eins og hægri öflin hafi gjörsamlega rúllað yfir vinstri öflin, enda héldu allir á Íslandi að þeir væru ríkir. Nú þegar efnahags-jarðskjálftinn hefur riðið yfir, þá halda allir á Íslandi að þeir séu fátækir og því er nú vinstra fólki hampað.
Ég bíð því spennt að sjá hvað gerist næst. Verður sjónunum beint að því að létta byrði heimilanna eða verður haldið áfram að hella vatni ofan á stóru strandreknu hvalina? Verður ákvarðanataka opnuð upp? Fáum við í alvörunni að vita hvað er í gangi? Hvar hlutirnir standa – og hvert leiðin liggur? Eða hverfur vinstra fólkið bak við sama tjald og forverarnir og sjást bara til að humma fram af sér spurningum? Hmmm… tikk, tokk, tikk, tokk…
Það var annars gullfallegur dagur hjá okkur í dag, og ég fór í stuttan göngutúr um hverfið eftir hádegismat. Nýi forsetinn heldur áfram að reyna sitt besta til að snúa þjóðarskútunni við, þrátt fyrir leiðinda vandamál eins og að tölvupóstkerfi hvíta hússins hafi hrunið í dag. Bjarki harðneitar ennþá að vilja byrja að ganga, og Anna er farin að fikra sig áfram við lestur.