Dublinar-heimsókn
Það tók mig nokkur ár að fatta að einn nágrannabær okkar heitir Dublin. Þar býr hún Soffía nú í 6 vikur í senn, á milli þess að hún dvelur í fjórar vikur á Íslandi. Þegar hún er hérna úti vinnur hún sem barna-innkirtlasérfræðingur, en heima er hún með almenna barnalækna-stofu í Dómus. Í dag lögðum við Finnur og krakkarnir (loksins) hraðbrautir undir fætur og keyrðum til Dublin til að kíkja á Soffíu, tvíburana Atla og Breka, ó-peruna Önnu og herbergið hans Stefáns.
Það var þvílík bongó-blíða að þegar við mættum til Dublin var Soffía þegar úti með litlu strákana á rosalega fína leikvellinum fyrir utan húsið þeirra. Við vorum því úti í góða stund, áður en við héldum inn til að fá okkur að borða. Svo skemmtilega vildi til að í dag var einmitt 9 ára afmælisdagur Ölmu Hildar svo að okkur var boðið upp á kökur og fínerí. Við spjölluðum vel og lengi, og fórum ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat! Það er svona að vera í góðra vina hópi! 🙂