Annar “í forseta” er ekki frídagur
Þriðjudagur… Almennur vinnudagur en ekki “heimadagur” eins og við Anna Sólrún köllum það þegar frí er í leikskólanum. Annars alltaf skrýtnar þessar fjögurra daga vinnuvikur – þær líða eitthvað svo hratt. Bara verst að þriggja daga helgarnar líða fjórum sinnum hraðar. :s
Anna Sólrún þarf greinilega minni svefn þessa dagana. Áður fyrr hrundi hún í rúmið stuttu eftir kvöldmat og steeeeinsofnaði. Núna kemur maður stundum að henni klukkan tíu í rúminu, býst við að hún sé steinsofandi. Í staðinn finnur maður hana umkringda dóti um allt rúm sem hún er búin að eyða kvöldinu í algjörri kyrrþey að leika sér með, við ljóstýruna á ganginum… situr með fiðrildavængi á bakinu og prinsessukórónuna á höfðinu, með te-bollastellið öðru megin í rúminu og dúkkuna og trédúkkurúmið hinum megin. Svo brosir hún vandræðalega með sprotann í hendinni þegar búið er að koma upp um hana. Það er stundum erfitt að fara ekki að hlæja að þessu öllu saman þegar maður reynir að byrsta sig. 🙂 En samt er hún yfirleitt kát morguninn eftir þrátt fyrir skertan svefn. Hún er hinsvegar á móti eiginlega alveg hætt að kalla á mann um miðja nótt… 7 9 13.
Talandi um svefntruflanir… Bjarki er vakinn á miðnætti til að fá mjólkurpela (sem hjálpar allri fjölskyldunni að fá góðan nætursvefn). Um leið fær hann bakflæðislyfið sitt, 5ml á kvöldi með mjólkinni. Hann hefur fengið þetta lyf meira og minna “alla sína ævi” og er orðinn svo vanur að hann liggur í fanginu á manni með hálflokuð augun og tekur sjálfur út úr sér snuðið, opnar munninn og bíður svefndrukkinn eftir súkkulaðilausninni sinni. Það var svo í gær sem mér varð hugsað til þess að það þyrfti á endanum ekki bara að venja hann af snuðinu heldur af súkkulaðibragðinu líka – áður en þetta endar í einu Snickers stykki fyrir nóttina svo hann geti sofið. 🙂 (Hér reis Hrefna upp á afturlappirnar og tók fram að hann komi ekki til með að fá neitt Snickers… það komi aðeins hágæða lífrænt snobbsúkkulaði úr Wholefoods til greina!) 🙂
Talandi um það – komið miðnætti og drengurinn er farinn að rumska. Best að útbúa kókómjólkina…