Skólastand
Mikið skólastand í dag. Við hittum kennarann hans Bjarka í klst eftir hádegi til að fara yfir þroskamatið hans og tala um hvernig honum gengur og stilla almennt saman strengi. Ágætis fundur og kennarinn hafði ekkert nema gott að segja um Bjarka. Vonandi sendir hún okkur smá fundaryfirlit, því ég man ekki nákvæmlega hvað hún sagði, en það hljómaði amk vel!
Að fundinum loknum fór ég og sótti um skólavist fyrir Önnu næsta haust. Jamm, hún er á leiðinni í “kindergarten” sem er hálfgerður núllti-bekkur. Valið stóð á milli “venjulega” hverfis-skólans, eða “framúrstefnulegri” val-skóla, þar sem gert er ráð fyrir töluverðri sjálfboðaliðavinnu af foreldrum. Við völdum að sækja um val-skólann, hálft-í-hvoru vegna þess að hverfis-skólinn er við hliðina á einni hraðbrautinni (mikil almenn mengun og hávaðamengun) og vegna þess að val-skólinn er meira á leiðinni í vinnuna fyrir Finn en hverfis-skólinn. Svo er ég “sukker” fyrir skólum sem leggja mikla áherslu á list og að kanna umhverfið, en ekki bara læra stafi og að reikna, sérstaklega fyrir yngri krakkana.
Ef of margir sækja um val-skólann þá verður haldið lotterí, og við fáum að vita niðurstöðuna í lok mars/byrjun apríl. Ef hún kemst ekki þar inn, þá endar hún í hverfis-skólanum, sem er víst svona la-la. Skólakerfið í Kaliforníu er nefnilega ferlega undarlegt. Árið 1978 kusu íbúar hér að breyta skattalöggjöfinni til að temja eignaskatta (Prop 13). Ein afleiðing þess var skólakerfið fékk miklu minni pening og nú er svo komið að fylkið er í 48. sæti af 50. hvað varðar námsárangur.
Hverfisskólarnir fá að einhverju leyti úthlutað skattpeningum úr sínu hverfi, þannig að skólar í góðum/ríkum hverfum fá meiri pening heldur en skólar í vondum/fátækum hverfum – og gæði skólanna eru eftir því. Þegar fólk flytur hingað þá velur það sé húsnæði beinlínis með tilliti til hversu góðir hverfisskólarnir eru. Þegar við fluttum síðast þá vorum við hins vegar mest að hugsa um að vera nálægt leikskólanum og vinnunni hans Finns, og enduðum því í svona meðal-hverfi. Annað sem er skrítið hér úti er að út af stanslausu fjársvelti þá er endalaust verið að safna pening fyrir hinu og þessu víst, og gert ráð fyrir frjálsum fjárframlögum til skólanna frá foreldrum.
Í skóla-skráningunni felst óneitanlega að við erum farin að hallast heldur meira á að vera hérna úti í eitt ár í viðbót, frekar en að flytjast heim til Íslands í sumar/haust. Satt best að segja höfum við ekki fengið mjög uppörvandi svör við því hvernig ástandið er heima, og erfitt að réttlæta það að flytja heim í mögulegt atvinnuleysi þegar Finnur er í góðri vinnu hérna úti, Bjarki í æðislegum leikskóla og ég að uhhh… það kemur í ljós. Mig grunar amk að botninum sé ekki náð heima, og að ýmislegt þurfi að gerast áður en við getum flust heim nokkuð viss um að enda ekki á atvinnuleysisskrá. Það er hins vegar ekkert harðákveðið og við erum sveigjanleg í þessu sem öðru.
Á móti kemur að aldrei þessu vant er Finnur að drukkna í sumarleyfisdögum, og ég á ennþá um tiltölulega frjálst höfuð að strjúka, þannig að í augnablikinu eru stefnt á langt sumarfrí á Íslandi í lok sumars… það er að segja ef Icelandair verður ennþá til! 😉
Annars verður að viðurkennast að það er nú ekkert ferlega slæmt að búa hérna. Helstu ókostirnir eru sem fyrr fjölskyldu- og vinaleysi, allt of mikill tímamismunur og gríðarlega hár lífskostnaður (leiga, skólagjöld, matur), en á móti kemur að veðrið er æææðislegt, og við eigum góða vini hérna líka. Krakkarnir hafa það líka gott: Hér fylgja myndir af Önnu í risarólunni á leikskólanum í gær.
Lárétt!! Hún er rosalega kröftug og með góðan takt.