Stoltur, hvumsa og með stjörnur í augunum
Ég var stoltur af Önnu Sólrúnu í gær. Hún mætti í berklapróf, rétti höndina að hjúkkunni og lét stinga sig í handlegginn með sprautu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Eitt lítið “ái” og þar með var það búið. Fékk (sykurlausan) sleikjó og límmiða að launum og svo beint í leikskólann að sýna krökkunum “meiddið”.
Í morgun varð ég svo hvumsa þegar ég rakst á frétt á CNet þar sem ummæli mín um það sem ég er vinna að eru tekin og því slegið upp sem frétt um hvað er í bígerð fyrir Krómið. Þetta fylgir víst því að vinna fyrir opnum tjöldum (open source) á Internetinu.
Og já, talandi um Internetið… Það er ekki oft sem maður er boðaður á fyrirtækjafund og situr við hliðina á “föður Internetsins” (Vint Cerf). Hvaða samræðum bryddar maður upp á við svoleiðis tækifæri? 🙂