Íslendingar!
Þar með er helgin liðin, bara tæp klukkustund þar til mánudagurinn tekur formlega við. Það verður að segjast að helgin hefur aldrei þessu vant verið óvenju helguð Íslendingum. Á föstudaginn héldu Gunnar og Ásdís smá kveðjuhóf, en Gunnar var að klára nám sitt í rafmagnsverkfræðideildinni og þau hjónakornin eru á leiðinni heim til Íslands – með stuttu stoppi í Mexíkó. Þau verða þó ekki lengi heima því Ásdís var að fá inni í framhaldsnám í lögfræðiskólanum í Berkeley og það er því von á þeim aftur á svæðið í haust. Í kveðjuhófinu hitti ég þá Egil og Ólaf sem ég hef ekki hitt lengi.
Þar sem við erum með nóg pláss í bílskúrnum okkar, samþykktum við að geyma búslóð þeirra Gunnars og Ásdísar fram í ágúst, og laugardagurinn fór í að flytja dótið á milli. Reyndar lánuðum við þeim bara bílinn okkar svo þetta var heldur sársaukalaust að okkar hálfu – fyrir utan að ég þurfti að endurraða í bílskúrnum. Það tók hins vegar stutta stund og núna er aftur auðgengið inn í skúrinn.
Sunnudeginum eyddum við svo að mestu í að undirbúa komu Elsu og Þráins og barna. Þau bjuggu á kampus með okkur fyrstu árin, en fluttu svo heim til Íslands. Nú er Þráinn svo kominn í rannsóknarleyfi til Oregon, og þau ákváðu að skella sér suður eftir. Þau mættu klukkan fimm í dag eftir samtals 9 tíma keyrslu á tveimur dögum, geri aðrir betur! Við tókum á móti þeim með pönnukökum, og svo skelltum við Elsa okkur með krakkana út á leikvöll (jibbí fyrir lengri dögum!) á meðan Finnur og Þráinn redduðu kvöldmat. Það stendur til að flakka með þeim á þriðjudag og miðvikudag og þau fara síðan á fimmtudag.
Fórnarlamb ljóskunnar Hrefnu. Ég steingleymdi að ein hellan
var heit eftir að ég hafði nýlokið við að steikja til pönnukökupönnuna
og skildi svo ekkert í því af hverju plastskálin (sem var full af hveiti
fyrir pönnukökur) var eins og límd við eldavélina…! Sem betur fer
náðist plastið af eldavélinni, en það mátti ekki miklu muna.