Allt á afturfótunum
Það gerðist óvenju mikið í dag – og fæst af því gott. Bjarki átti tíma í heyrnamælingu klukkan 10 í morgun og þegar ég fór út úr húsi með Bjarka komst ég að því að Finnur hafði farið á bílnum í vinnuna, en ekki hjólandi eins og ég bjóst við. Ég náði ekki í Finn í vinnunni, og því voru góð ráð dýr, enda við að verða of sein. Þá var nú gott að vera með gesti, því að Elsa tók að sér að skutla okkur niður á heilsugæslustöð. Á leiðinni náði ég í Finn í síma, og hann lofaði að hitta mig á heilsugæslustöðinni klukkan 11 til að keyra okkur heim.
Heyrnamælingin gekk vel, en niðurstöðurnar voru ekki mjög beysnar. Í ljós kom að hljóðhimnurnar á Bjarka vildu lítið sem ekkert hreyfast og læknirinn komast að þeirri niðurstöðu að hann heyrði alls ekki vel. Hún mældi hins vegar líka hvernig innra eyra heyrði og það virkaði eðlilega. Hún sagði líklegt að eyrun væru full af vökva, og sagði mér að panta tíma hjá háls-, nef- og eyrnalækni. Næsti tími hjá einum svoleiðis var á fimmtudaginn, svo ég rölti niður á barnadeildina og spurði hvort það væri ekki einhver læknir sem gæti kíkt á eyrun á Bjarka. Það hafðist, og í ljós kom að hann er aftur kominn með bullandi eyrnabólgu. Halló sýklalyf!
Á meðan þessu stóð hafði Finnur mætt á heilsugæsluna, farsímalaus, og hann gekk um og leitaði að okkur í dágóða stund. Fyrir heppni náði ég á hann hjá heyrnamælingunni og við héldum í matarbúðina til að kaupa í matinn. Við stungum síðan Bjarka á leikskólann og ég hitti svo á einn af kennurum Önnu á kaffiteríunni. Hún sagði mér að Anna væri líklega að verða veik, amk væri hún ekki að keyra á fullu spani. Mér hafði nú grunað það í morgun, en hún var samt send út úr húsi. Ekki nóg með að Anna væri að veikjast, heldur ákvað Finnur að vera heima eftir hádegi, enda ekki alveg “hundrað prósent”.
Rúmlega fimm var svo hringt í okkur frá leikskólanum, okkur tjáð að Anna hefði verið að leika sér skólaus, og væri núna komin með stóra flís undir löppina – og að við þyrftum að ná í hana. Það stóð heima, rúmlega cm löng flís undir húðinni og ég fór með Önnu beint heim. Þar hélt ég henni öskrandi niðri í næstum 10 mínútur á meðan Finnur notaði nál og flísatöng til að lokka flísina út. Það hafðist að lokum og þar með var ósköpum dagins lokið – vona ég – því það eru ennþá rúmir tveir tímar eftir af mánudeginum!