Danssýning
Eftir sundtímann í hádeginu í dag keyrðum við Anna til Deirdre. Það vill svo til að hún býr rétt hjá listamiðstöð, og það vildi svo til að listamiðstöðin var með sérstaka hátíð í dag til að heiðra höfundinn Remy Charlip. Sá hefur skrifað margar barnabækur, og fann upp á “póst-dönsum”, sem virka þannig að hann sendir teikningar af stellingum í pósti, og dansarar raða stellingunum í röð og finna leiðir á milli þeirra.
Við löbbuðum til listamiðstöðvarinnar og mættum rétt nógu snemma til að skoða okkur um fína húsnæðið þeirra. Þar römbuðum við meðal annars inn á ljósmyndasýningu af “bönnuðum” myndum. Í hverjum myndaramma var tómur kassi/rammi og svo ljósmynd. Tómi ramminn táknaði að einhver hafði reynt að taka mynd af einhverju, og verið stöðvuð/aður. Hin myndin var svo mynd af sama hlutnum af netinu. Það var mikið af brúm, orkuverum og byggingum, en það kom á óvart að finna myndir frá Disneylandi líka.
Þegar við vorum búin að skoða myndirnar var kominn tími á danssýningu. Sýningin var klukkutíma löng og samastóð af “póst-dönsum” eftir heiðursgestinn. Dansararnir voru allir ólíkir. Fyrst kom kona sem “dansaði” innan í/utan á upplyftum hurðarramma sem var líka hálfgerður gluggarammi. Svo kom lítið hnellið fjörugt danspar. Því næst paradans, með átta krökkum, þar sem tvær og tvær stelpur sveigðu sig og beygðu innan í tveimur stórum upphengdum hringjum á meðan tvö pör dönsuðu hálfgerðan hermidans. Eftir kom maður í hjólastól og dansaði andlitsdans (það er hann gretti sig), áður en tvær (fullfima) konur bættust í hópinn og framkvæmdu með honum stúdíu í hvernig hægt er að nálgast þrjár tröppur. Þá kom kona í hjólastól og dansaði stúdíu á því hvernig hægt er að lesa bók í tvísæta sófa og í lokin dansaði fullfima kona við konu í rafmagnshjólastól. Síðari dansararnir voru frá Axis Dance Company (YouTube).