Skattar
2009-04-15Uncategorized Standard
Ekki mikið að gerast þessa dagana eftir fjör helgarinnar. Dagarnir koma og fara og nú er apríl hálfnaður. Í dag var “skattadagur” í Bandaríkjunum, síðasti dagur til að senda skattskýrslurnar (já, þær eru tvær) til skattsins. Við vorum reyndar snemma í því í ár, aðallega út af íslenska framtalinu. Aldrei þessu vant freistaðist ég til að festa kaup á skattframtalsforriti, því Finnur fékk afslátt af því í gegnum Gúgul og mig langaði til að sjá hvernig forritið gerði hlutina.
Skattframtalsforritið atarna býr á netinu, og ég eyddi einni kvöldstund í að pikka inn allar upplýsingar af hinum ýmsu skattmiðum sem okkur hafði borist. Engin forskráning upplýsinga hér, ónei. Þegar allar upplýsingarnar voru komnar inn, þá var komið að því að borga fyrir að senda herlegheitin rafrænt inn til alríkis-skattsins. Að því loknu komu upp skilaboð um það “það væri verið að skipta um server” og þegar kerfið birtist á ný, þá voru allar upplýsingarnar horfnar fyrir utan nöfnin okkar og kennitölur. Ó, boj!
Kerfið var meiri að segja svo ruglað að á einum stað var ég ekki búin að borga, en á öðrum stað var ég búin að borga. Mér leist ekkert á þetta, en klukkan var orðin margt, og því ekkert annað að gera en að bíða til morguns. Ég vonaði (og vona) bara innilega að einhver skuggalegur hakkari (eða “hakkarakona”) hefði ekki nýlokið við að stela öllum þeim upplýsingum sem þarf til að þykjast vera við.
Daginn eftir hringdi ég í fyrirtækið og eftir miiiiikið japl, jaml og fuður, þá “gaf” konan í símanum (með yfirmanninn fyrir aftan sig) mér “niðurhalanlegt” eintak af forritinu. Þar með gat ég verið viss um að upplýsingarnar myndu ekki hverfa fyrirvaralaust og eintakið innihélt eitt “ókeypis” framtal, sem ég var tæknilega þegar búin að borga fyrir. Ég blótaði vef-framtalskerfinu í sand og ösku á meðan ég pikkaði allar upplýsingarnar aftur inn, og hét því að nota það aldrei aftur.
Að sjálfsögðu reyndist forritið vera peningaplokk, því í lokin vill það rukka mann aukalega fyrir að búa til og senda inn skattaskýrslu fyrir fylkið (það er ókeypis að gera og senda inn skattana á netinu í Kaliforníu), og svo var boðið upp á alls konar “þjónustur” ef svo illa vildi til að skatturinn tæki okkur í yfirhalningu. Mér leiðast peningaplokk! Grump!
Í lokin má svo minnast á að í dag voru víst mótmæli um öll Bandaríkin á móti sköttum. Mér heyrðist samt á fréttunum að fólk væri almennt að mótmæla fjáraustri ríkisstjórnarinnar (og flestir með þægilegt minnisleysi gagnvart fyrrverandi ríkisstjórn) svo og heimta minni ríkisstjórn – þó svo flestir séu ekki tilbúnir að segja hvað eigi að skera niður – en aldrei er beðið um að minnka herinn.
Mér finnst reyndar alltaf jafn “skondið” (eða sorglegt öllu heldur) þegar fólk kvartar og kveinar yfir því að skattbyrði “lítilla fyrirtækja” sé svo svakaleg að það er varla þess virði að stofna þau. Eftir því sem ég hef heyrt, þá eru heilsutrygginarmál miklu verra heldur en skattbyrði fyrirtækja. Hér er það nefnilega svo að fólk er yfirleitt heilsutryggt í gegnum vinnuna sína, og heilsutrygginar kosta morð fjár, sérstaklega fyrir lítil fyrirtæki, því að “hópurinn” sem deilir “áhættunni” er svo lítill. Það að bæta við sig starfsmanni er því ekki bara spurning um laun starfsmannsins og svo skatta, heldur líka heilsutrygginar, sem hækka miklu hraðar en verðbólgan. Meira Grrr… Urggg…
Ókei, næsti póstur verður létthjartaðri…