Ahhhh… Kaaaaalífoooornííííaaaaaaa
2009-04-18Uncategorized Standard
Dagurinn í dag var eðal. Heitasti laugardagurinn í vor, vefsíðan spáði 23 gráðum, en mig grunar að það hafi verið heitara. Finnur tók morgunvaktina að vanda og ég fékk að sofa út, sem kom sér extra vel því í gærkvöldi hélt Edda eðal-saumaklúbb í suðursveitum. Ég fór með Önnu í hinn vikulega sundtíma í hádeginu og var heldur betur kát yfir því að það var loksins búið að taka plasthúsið niður. Plasthúsið atarna sparaði kannski hitunarkostnað yfir veturinn, en það var eins og að ganga inn í klórfyllt gufuhús.
Hvað um það. Ég sat sem sagt í sólinni og spjallað við eina sund-mömmuna á meðan Anna æfði skriðsundtökin. Næst lá leiðin í leit að hádegismat sem endaði í bókabúð. Þar rakst ég á Ástríksbækur og freistaðist til að kaupa Ástrík á Ólympíuleikunum. Um morguninn hafði verið skipulagt sund-plei-deit í nágrenni við Stanford kringluna, svo við fengum okkur að borða þar. Svo lét ég loksins freistast og gekk inn í Crate and Barrel.
Það er nefnilega partur af “flytja til Íslands” pakkanum að maður hlaði sig upp af húsgögnum fyrir flutning. Þar sem sófarnir okkar eru orðnir heldur laskaðir og eldhúsborðið of lítið ef við fáum fleiri en tvo í heimsókn þá klæjar mig örlítið í puttana að “endurnýja”. Niðurstaðan af heimsókninni var sú að ég slefaði yfir tveimur (1, 2) eldhús/borðstofu-borðum en var lítið spennt fyrir sófunum. Það er víst ekki í tísku núna að vera með “mjúka” sófaarma, heldur eru þeir allir harðir og ferkantaðir. Fyrir fólk eins og okkur sem situr sjaldan sem aldrei í sófanum heldur liggur, þá eru harðir armar vonlausir. Þannig að við gætum þurft að sitja út þá tísku.
Sund-leik-stefnumótið var snilld. Anna synti með vinkonum sínum og við mæðurnar sátum í skugga af sólhlíf og spjölluðum. Ahhhh… Kaaaalifoooorníííaaaaa…. 🙂