Meiri veikindi
2010-03-12Uncategorized Standard
Huh, það er liðin rúm vika frá síðustu færslu. Mig grunar að fésbókin sé aðeins farin að ræna athyglinni frá blogginu, enda meiri líkur á að fá komment þar en hér – og það er óneitanlega óendanlega gaman að fá komment. Hvað um það. Best að rifja upp hvað hefur gerst frá því á þriðjudaginn í síðustu viku.
Bjarki breyttist í algjöran gutta eftir að hann fékk sýklalyfið við streptókokkunum, og hló og skríkti og prakkaraðist allan miðvikudaginn. Það var fyrst þá að ég tók eftir hvað hann hafði í raun verið daufur í veikindunum þrátt fyrir að vera “ekki svo veikur”. Við vorum að sjálfsögðu heima við enda þurfa að líða 24 hitalausir tímar áður en það má fara aftur í skólann.
Um kvöldið kom Augusto til að passa á meðan við hjónakornin hjóluðum við niður í miðbæ og læstum hjólunum okkar fyrir framan ofur-veitingarstaðinn Chez TJ. Þar borguðum við fáránlega mikla peninga og fengum í staðinn að vera miðpunkturinn í matar-leikhúsi, allt í tilefni af 10 ára brúðkaupsafmæli, útskrift, afmæli og bara því að vera til. Maturinn var allur ljúffengur, vel framreiddur og eftirminnilegur – en hápunkturinn, ef svo mætti að orði komast, var heimatilbúið Coco Puffs notað til að skreyta eftirréttinn minn. Við hlæjum ennþá ef annað hvort okkar segir Coco Puffs??! 🙂
Á fimmtudeginum fór Bjarki aftur á leikskólann eftir viku fjarvist, og var víst örlítið feiminn. Ég hélt að ég myndi eiga barnlausan dag, en þá rann upp fyrir mér að ég átti eftir að hjálpa til í skólanum hennar Önnu frá hálf níu til rúmlega tíu, og svo var bekkjarfundur á leikskólanum hans Bjarka í lok dags. Og svo má ekki gleyma því að ég þurfti að ná í Önnu úr skólanum rétt fyrir hádegi, fæða hana og lokka hana í gegnum píanóæfingar áður en ég fór með hana í eftirskólapössun.
Á föstudeginum átti ég hins vegar alvöru barnslausan dag, gerði mitt morgun-jóga, og eyddi síðan sálarkremjandi klukkustundum í atvinnuleit í Bandaríkjunum. Mikið ferlega væri nú þægilegt ef maður ætti sér einhvern góðan mentor sem segði manni hvað maður ætti að gera næst, og reddaði manni vinnu eða eitthvað. Það er hálf kalt hérna úti í raunveruleikanum…
Á laugardeginum fór ég að hitta Kerri og Deirdre og við áttum okkar nokkurn-veginn mánaðarlega spjall. Það er gott að eiga vini sem maður getur kvartað og kveinað við um allt og ekkert vitandi það að vinirnir þekkja mann betur en maður sjálfur og á móti hlustar maður á þeirra kvart og kvein. Inn á milli eru að sjálfsögðu alltaf góðar fréttir og ýmislegt spennandi, en það er ágætt að þurfa ekki að vera með ó-guð-allt-er-æðislegt-og-ég-er-æðisleg-og-ég-veit-hvað-ég-vil-og-lífið-er-bara-skipulagt-frá-a-til-ö-grímuna uppi. (Og lesandi þetta þá er það greinilega “óvissan” sem er að fara með mig. Bah humbug.) Á meðan við spjölluðum var Anna hjá Lulu, og ég tók þær síðan báðar heim í slíp-óver.
Á sunnudeginum fór Lulu snemma, en öll hennar fjölskylda ásamt Augusto, Söruh og (veikum) Jason komu síðar um daginn og borðuðu með okkur mango-chutney-lax (takk Holla!) til að halda síðbúið upp á afmælið mitt (me me me me!). Við ætluðum að gera þetta um síðustu helgi, en þá var Bjarki veikur.
Á mánudeginum var ég svo lúmsk að skipuleggja pleideit fyrir Önnu eftir skóla hjá strák sem býr við hliðina á skólanum, svo ég þurfti ekki að ná í hana. Score! Í staðinn réðst ég á húsið því það var von á Snorra (hennar Guðrúnar) í stutta heimsókn í tilefni af GDC uppi í borg – og ekki hægt að bjóða honum upp á rúm fullt af hvítum pappírssnifsum (“snjó!”).
Eitthvað potaðist ég líka í atvinnumálum, en fann ekki margt. Helst eru atvinnumál að þyrla upp stormi af “hvað vil ég gera?”, “hvað væri ég góð að gera” og “hvað fyndist mér rosalega spennandi að gera?”. Sem breytist örugglega fljótlega í “frak, ég þarf bara að fá einhverja vinnu!!”. (og já, ég get farið að vinna fyrir leiðbeinandann minn, en hann vill að ég taki mér tíma í sálarrannsakanir fyrst, urg).
Snorri stakk af upp í borg snemma á þriðjudeginum, en í staðinn fyrir meira sjálfsrannsökunarröfl þá gerði Anna mér þann greiða að fá hita og þar með vissi ég að hún yrði heima í amk tvo daga. Ég veit það af fyrri reynslu að það þýðir ekkert að vinna með börnin í húsinu (Anna hreinlega breyist í kött sem strýkst utan í mig, í kringum mig, ofan á mig, og framan við mig ef ég reyni að vinna í tölvunni) svo ég er löngu búin að gefast upp á því nema í neyðartilfellum. Í staðinn horfðum við eitthvað á DVD/sjónvarpið, Cirque du Soleil á YouTube, ég las bókina mína og svo steinsofnaði Anna í fanginu á mér á sófanum eftir það sem ég hélt að yrði stutt knús og þar sváfum við í tvo tíma. Ekki slæmt það.
Í gær, miðvikudag var Anna orðin vel spræk og hitalaus, en fljótlega eftir hádegi hringdi einn kennarinn hans Bjarka og bað um að við næðum í hann. Þá hafði hann átt afskaplega erfiðan morgun, og hann vildi alls ekki fara að sofa svo að kennarinn sá fram á hroðalegt eftirmiðdegi. Við Anna náðum því í hann, ég setti hann í rúmið heima og hann svaf í rúma þrjá tíma! Um kvöldið eldaði Finnur sjávarréttasúpu og síðan eyddum við kvöldinu með Snorra – spilandi spil að sjálfsögðu.
Í morgun, fimmtudag, kvöddum við Snorra, sem ætlar að eyða næstu nóttum uppi í borg, enda ráðstefnan þá hafin að alvöru, áður en hann heldur til Atlanta. Ég fór og hjálpaði til í skólanum hennar Önnu (fékk að lesa bók fyrir bekkinn, það var upplifun) en þegar heim var komið biðu þar Finnur og Bjarki því að nú var Bjarki kominn með hita. Finnur tók því að sér Önnu-hádegis-næringu-og-skutl en ég eyddi deginum heima með Bjarka. Tókst að gleyma tannlæknatíma (fékk nýjan í næstu viku, phew!) en annars horfuðum við á tónlistarmyndbönd á YouTube.
Það er annars merkilegt, en Bjarki er með ferlega sterkar skoðanir á tónlistarmyndböndum. Sum vill hann sjá aftur og aftur, en önnur vill hann ekkert hafa með. Vinsælustu myndböndin hafa verið Pearl Jam – Just Breathe, Train – Hey Soul Sister, Jason Mraz – I’m Yours. Hann hefur púað á svo til öll önnur lög með þessum sömu tónlistarmönnum. Anna er hins vegar dolfallin yfir Pink – Glitter in the Air, og Taylor Swift – Love Story. Hún elskar líka Lady Gaga þegar hún heyrir í henni í útvarpinu, en ég er ekki alveg viss um að þau myndbönd séu við hæfi ungra barna. Allt eru þetta lög úr útvarpinu í bílnum (nema Pink lagið), sem Anna stjórnar með harðri hendi (þegar hún kemst upp með það).
Í kvöld fór ég svo að lesa The Writer’s Tale – The Final Chapter, sem fékk mig líklega til að skrifa þessa blogg færslu. Bókin sú er samansafn af t