Hágæða stressari
Ég gantast stundum með það að það hefði engu máli skipt hvað ég hefði tekið mér fyrir hendur undanfarin x ár, ég hefði stressaði mig í kringlu sama hvað það hefði verið. Um helgina rann einmitt upp fyrir mér að ég er ekki lengur stressuð yfir því hvort ég klári, heldur hvenær ég klári.
Þannig er ég búin að setja andlegt markmið á að skila inn ritgerðinni fyrir 18. september sem er lokadagsetning fyrir sumarönnina (“útskrift” 24. sept). Þar sem að við erum að fara heim í 17. júlí, þá þýðir það að ég þarf að vera að mestu búin með ritgerðina áður en við förum svo ég geti lagt verkið í hendur yfirlesaranna. Þegar við komum út aftur þann 22. ágúst hef ég svo tæpan mánuð til að leggja lokahönd á verkið. Ef það næst ekki, þá er næsta lokaskiladagsetning 4. desember (“útskrift” 7. jan).
Þetta væri svo sem ekkert svakalegt mál, nema vegna þess að ég þarf að sækja um eftir-náms-atvinnuleyfi 60 dögum fyrir útskrift eða svo. Og já, helst vera komin með vinnu. Eða eitthvað. Og svo væri sniðugt að skrifa grein upp úr ritgerðinni. Og svo… og svo… Sum sé, ég er búin að finna mér nýtt stress-efni!
Það breytir því samt ekki að ég er að hugsa um að storka örlögunum og “ganga” í sumar þegar eina “alvöru” útskriftin er haldin með athöfn og alles. Það þýðir að ég klæðist í svarta mussu (nú með þremur filt-röndum á örmunum, en ekki bara einni) og geng yfir sviðið til að taka á móti tómri rauðri möppu sem í er blað sem á stendur “vinsamlegast skilið möppunni til deildarinnar eftir athöfn”. En það verður amk tekin mynd, og þetta þýðir að ég þarf ekki að vera í Kalí næsta júní, heldur get verið ahemm… flutt til Íslands… 🙂