Afturfætur
Hér óðu afturfætur um allt í dag. Bjarki hefur verið fúll á móti undanfarna daga, að öllum líkindum vegna tannverkja því við höldum að tveggja ára jaxlarnir séu farnir að láta á sér kræla þó enn sem komið séu þeir hvernig sjáanlegir. Til að bæta illu við vont þá kláraðist mjólkin yfir morgunmatnum svo það var ekki annað hægt en að draga drenginn út í búð.
Sá var ekki kátur þegar honum var meinað að borða það sem fór í körfuna, og eftir að heim var komið seig brúnin enn neðar á meðan ég bjó til hafragraut eins hratt og ég gat. Fljótlega eftir matinn tók ég stanslausar beiðnir um að ég ætti að halda á honum sem að nú væri kominn lúllutími, og hann varð formlega hundfúll þegar ég setti hann niður á meðan ég tók til fyrir hann mjólkurpela.
Þegar upp var komið var ekki nokkru tjónki við hann komið og ég endaði á að skilja hann eftir í rúminu í þeirri von að hann myndi gleyma af hverju hann varð fúll. Það gekk eftir því að mér var tekið fagnandi þegar ég kom inn aftur, og hann samþykkti pelann. Hann sofnaði í fanginu á mér, en vaknaði um leið og ég lagði hann í rúmið sitt. Þar sem ég stóð hjá honum í von að hann sofnaði aftur, þá kom hálfur mjólkurpelinn upp aftur, líklega bara af taugaspenningi.
Þar með var sú lúrustund út úr myndinni og við héldum inn á bað. Rétt áður en ég setti hann í baðið pissaði Bjarki svo á gólfið og þar með var ég endanlega dottin inn í lélega hrakfalla-gamanmynd. Þegar Bjarki, gólfið og rúmið voru orðin hrein þá náði ég í verkjalyf og það stóð heima að 20 mínútum síðar var sá stutti orðinn hamingjusamur, til í að borða hádegismat og því var honum dembt á leikskólann skömmu síðar. Hvað gerði maður ef maður hefði ekki leikskólann!?!?
Mér varð ekki mikið úr verki í dag eftir þennan út-úr-kú morgun, en lofa sjálfri mér að sjálfsögðu bótum og betrumbótum á morgun að vanda.
Við gerðum lítið að viti í kvöld nema slefa yfir eins og hálfrar klukkustundar löngu developer-demói af Google Wave sem loksins loksins lofar að sameina tölvupóst, smáskilaboð, skjalaritun, og bara allt undir einum hatti. Lofar góðu verð ég að segja.