Gengið
Ég ákvað fyrir skömmu að “ganga”, það er taka þátt í útskriftarathöfninni, þó svo að ég sé ekki búin með ritgerðina ennþá. Bæði vildi ég ljúka “göngunni” af, svo og “ganga” með síðustu hópfélögum mínum sem eru eftir við deildina. Það eru nefnilega ekki svo margir eftir sem byrjuðu um sama leyti og ég. Deildin leyfir fólki að “ganga” svo lengi sem maður fái upp á það skrifað frá prófessor að maður ætti að/muni útskrifast innan árs. Það er nefnilega bara ein útskriftarhátíð á ári, en fjórar “útskriftardagsetningar”.
Ekkert fékk ég því skírteinið í dag, bara pappír til að þakka mér fyrir þáttökuna, og beiðni um að vinsamlegast skila fínu möppunni aftur eftir athöfnina. Ég þurfti svo og að skila skykkjunni og hettunni, en hatturinn er minn til eignar. Fyrir utan hattinn græddi ég myndir, bæði frá atvinnuljósmyndara, svo og frá Augusto sem mætti til að festa athöfnina á kubb. Finnur sá um að taka athöfnina upp á myndband, sem fer vonandi á netið innan skamms. Það breytir því ekki að ég á nú inni persónulega karma-inneign um að Anna og/eða Bjarki munu ekki gefa mér neinn fyrirvara fyrir einhvern atburð í þeirra lífi!
Þessi útskrift var annars alveg eins og masters-útskriftin: heitt, fólk að keppast um sæti í skugga, fólk að troðast til að taka myndir, og rúmlega 200 rafmagnsverkfræðingar að fá skírteini af ýmsum gerðum. Eini munurinn á doktorsnemunum og svo MS og BS nemunum, er að doktorsnemarnir fá þrjár rendur á hendurnar á skykkjunni, gulan dúsk á húfuna og svo “hettar” þá prófessor áður en þeir fá skírteinið. Það þýðir bara að prófessorinn manns stendur uppi á kassa, og setur “hettu” á mann (enska: “I was hooded”).
Eftir athöfnina skiluðum við af okkur möppunni, skykkjunni og hettunni og héldum svo heim. Skömmu síðar fengum við þrjú pör í “pottlukku” (potluck) og vígðum af því tilefni nýja borðið okkar, sem við færðum inn í hús í gærkvöldi. Myndir af því koma á morgun, því það er löngu komin nótt og svefntími.