Allra þjóða kvikindi
Ég hef verið límd við tölvuna í rúmlega viku að fylgjast með atburðum í Íran, mest í gegnum NY Times Lede, Huffington Post og Andrew Sullivan. Ef einhver hefur búið undir steini þá voru haldnar þar kosningar 12. júní, úrslit kosninganna voru tilkynnt nánast samstundis í hag þáverandi forseta, stór hluti landsmanna (svo og aðrir, sjá 1, 2) trúði niðurstöðunni ekki og það hafa verið mikil mótmæli í gangi síðan þá.
Ég hef ekki mikið um málið að segja, annað en að vonandi er þetta byrjunin á endanum fyrir núverandi stjórnvöld í Íran, og að vonandi verði sem minnst um blóðsúthellingar.
Það sem ég vildi hins vegar tjá mig örlítið um eru afleiðingar þess að búa fjarri heimahögunum og því að kynnast “öðru” fólki. Ég hef undanfarna daga verið að reyna að setja mig í þau spor að ég hefði aldrei flutt út í heim, heldur búið áfram á Íslandi og því aldrei kynnst öllum þeim Írönum sem ég þekki í dag. Ég sé sjálfa mig fyrir mér að sitja í stofunni, horfandi á fréttirnar á RÚV, að býsnast yfir IceSave málunum, og jú, taka eftir að það væru mótmæli í Íran, og hugsa “jamm, enn ein mótmælin, ætlar þetta miðausturlandavesen engan enda að taka?”.
Í staðinn er ég í þeim sporum að þekkja persónulega fullt af Írönum, þar á meðal skrifstofusystur mína til margra ára. Eins og alltaf þá virðist þessi persónulega tenging skipta ótrúlegu máli. Í staðinn fyrir stereótýpískan AK-47 sveiflandi miðausturlanda-hryðjuverkamann, þá hef ég í huga ótrúlega vingjarnlegt og hreinskilið fólk, konur sem karla, sem hafa upp til hópa gríðarlegar áhyggjur af heimalandi sínu.