Sunnudagur 2. desember
Ég held mig langi heim, held mig langi heim…
Bara 12 dagar eftir!! 🙂 Reyndar þokkalega úfnir og brjálaðir 12 dagar en þeir eiga nú eftir að líða fyrir það! Annars erum við búin að vera meðal-busy. Á föstudaginn fórum við hjónin út að borða á Taj Mahal (enn og aftur) og svo fórum við á hana ofursætu Amelie og fengum algjöra evrópska heimþrá. Það stórvantar svona “quirky”-lið hérna, þetta “furðulega kaffihúsalið” ef svo mætti að orðum komast. Fólkið sem klæðir sig í skemmtileg föt og er bara öðruvísi og svoldið “lifandi”. Ég er sem sagt komin með upp í kok af að sjá alla í jafn leiðinlegum fötum (ekki það að ég sé í skemmtilegum fötum – en það hefur alltaf verið nóg af svoleiðis í kringum mig) og hvað allir eru þreyttir og sjúskaðir… Ekki það að fólk sé neitt verra fyrir vikið – en það var gott að sjá Amelie.
Á laugardaginn tók ég mér næstum 3 tíma í að horfa á rúmlega klst langan fyrirlestur sem ég skrópaði í til að fara til LA um daginn – og svo graflaði ég í heimadæmum þangað til ég fór og náði í pizzu handa Finni og mér – og kippti með “Þegar Trölli stal jólunum” á DVD formi. Án þess að vera að breytast í einhvern kvikmyndagagnrýnanda þá fylgdu myndinni afar blendnar tilfinningar. Bókin er að sjálfsögðu gullmoli en það ætti að skjóta handritshöfund myndarinnar. Hverjum datt í hug að gera Cindy Loo Who að aðalpersónu?!?! Mig langaði til að lemja þennan stelpuskratta í hvert sinn sem hún birtist fyrir utan atriðið þar sem hún á raun heima – þegar Trölli stelur jólatrénu. En heimurinn var vel gerður og greinilega mikið í hann lagt… en “vellan” var heldur of mikil…
Sunnudagur: Í dag hélt Guðrún jólaföndur og mig langaði svo að fara! En ég sat föst yfir heimadæmum og er næstum illt í maganum af gremju. Ég vona bara að ég komist næsta ár!! Í sárabætur hengdi ég upp jólaljós í kringum töfluna okkar á skrifstofunni og er núna að agitera fyrir því að loftljósin séu slökkt svo maður geti notið litanna til fullnustu… 🙂
P.s. Ef einhver er að lesa þetta sem þarf að koma pökkum heim þá erum við með nóg pláss! 🙂