Miðvikudagur 16. janúar 2002
Jóga!
Það er búið að vera á dagskrá hjá mér heillengi að fara í jóga – ég reyndi í október, en þar sem ég var í lægsta forgangshópi síðasta misseri varð ekkert úr því. Nú er hins vegar komið nýtt misseri og fólk sem heitir nöfnum sem byrja á A-G (fyrir Gunnarsdóttur) hefur núna hæsta forgang. Ég fór því kát og glöð og kom mér inn í jógatíma – og í dag var fyrsti tíminn (ég missti því miður af alveg fyrsta tímanum sem var síðasta mánudag). Þetta gekk bara vel, að vísu var ég með smá harðsperrur eftir “Weight training for women” tímann í gær þar sem við vorum teknar í gegn með Jane Fonda æfingum, en ég datt amk ekki á hausinn! Ég ætla reyndar ekki að halda því fram að það hafi verið fögur sjón að sjá mig. But what the heck – maður lifir bara einu sinni! 🙂
Annars þjáist ég ennþá af almennum heiladauða. Reyndi að gera smá heimadæmi í dag – niðurstaðan var u.þ.b. ein lína á hverjum hálftíma. Þess þarf varla að geta að ég kláraði þau ekki – en það er í lagi því ég á ekki að skila þeim fyrr en í næstu viku! 🙂