Fimmtudagur 24. janúar 2002
Heimadæmi galore!
Er búin að skila inn þremur heimadæmaskömmtum á þremur dögum núna – en það á ekki eftir að gerast mikið oftar næstu vikurnar því ég er bara í tveimur kúrsum. Þessi aukalegu dæmi voru afleiðing af kvölunum, en venjulega á ég að skila tveimur skömmtum á fimmtudögum, sem þýðir að föstudagar verða alveg frábærir! 🙂 Og helgar líka!! 🙂
Lífið er líka að falla í sínar skorður núna eftir kvalirnar, fólk er svona farið að vakna til lífsins aftur og líta í kringum sig. Hef heyrt af því að sumir ætli að skoða San Francisco í fyrsta sinn en aðrir eru farnir heim í frí hreinlega! Annars er ég núna búin að heyra fleiri tölur, fleiri sem féllu aðallega, enda heyrir maður fyrst frá þeim sem ná!! En það voru sem sagt bara 41% sem var hleypt í gegn í staðinn fyrir um 50% sem kom sumum á óvart. En margir ætla að áfrýja en það getur maður gert ef maður er með prófessor, hefur unnið eitthvað fyrir hann og var nálægt því að ná.
Nóg um kvölina nú. Til að halda upp á nýtt líf þá fórum við í kvöld að spila pool með Augusto, Fayaz og Söru – það er meiri að segja fræðilegur möguleiki að fimmtudagskvöld verði poolkvöld því það er hægt að spila ókeypis pool heima í komplexinu hans Augusto.