Laugardagur 8. febrúar 2002
Aðgerðarleysi
Í dag var fyrsti alvöru vordagurinn, hlýtt og fallegt í staðinn fyrir ískalt og fallegt. Það hafði hins vegar lítil áhrif á okkur því við skriðum fram úr um þrjúleytið eftir hádegi og lágum í sófanum þreytt og sjúskuð. Sérstaklega var mér annt um hálsinn minn sem er eitthvað búinn að vera að ybba sig og þykjast vera veikur. Um sexleytið fór Finnur samt út að kaupa í matinn og kokkaði síðan alveg dýrindis nautakjötsmáltíð úr “Kokkur án klæða” bókinni okkar. Rétturinn var ekki alveg jafn góður og himneski kjúklingurinn um daginn en samt miklu betri en flestur matur sem ég hef fengið á veitingastöðum hér. Það fer að stefna í að helgar verði svona “Kokkur án klæða” dagar því hann hefur ekki brugðist ennþá! 🙂
Seinna um kvöldið komu svo Augusto og David Hooper í heimsókn og við horfðum á No Escape í vídeóinu. Þetta er mynd frá 1994 með Ray Liotta sem David hafði séð fyrir löngu síðan og langaði að sjá aftur. Okkur að óvörum var myndin hin ágætasta skemmtun og kom öllum í gott skap… ja, eða svoleiðis. Síðan fóru þeir félagar heim og ég stalst til að horfa á America’s Sweethearts til klukkan hálf fjögur um nóttina. Sussubía og svei svei! Finnur hinn skynsami lá sofandi í hinum sófanum á meðan (eins og tíðkast í hans fjölskyldu… hehe. 🙂