Laugardagur 16. febrúar 2002
Ferðadagur
Aldrei þessu vant tókst okkur að “rífa okkur upp af rassgatinu” og skreppa í smá bíltúr í dag! Við keyrðum sem leið lá norður og í gegnum San Francisco og yfir Golden Gate brúna inn í Marin County. Þar stoppuðum við og tókum myndir af borginni og brúnni (sem komast vonandi fljótlega á vefinn) og héldum síðan áfram á ótroðnar slóðir. Þar sem það var greinilega ömurlegt veður við Kyrrahafsströndina ákváðum við að kíkja á Wine Country í staðinn en það eru vínekrurnar fyrir norðan okkur.
Þar sem við vorum frekar seint á ferðinni stoppuðum við í Sonoma og létum þar við sitja. Seinna meir ætlum við að fara aðeins lengra (t.d. til Napa) en það var hvort eð er ekkert frábært veður þannig að þetta var bara fínt! Við smökkuðum smá vín og osta, keyptum eina flösku, gengum um, fengum okkur pizzu og tókum myndir í Sonoma áður en við héldum til baka. Rétt fyrir lokun kíktum við í vínsmökkun til Schug því að við vorum með “frímiða” á smökkun þar frá Upplýsingamiðstöðinni fyrir túrhesta. Til að gera langa sögu stutta þá líkaði okkur alls ekki við Schug vínin þannig að við vorum snögg að koma okkur þaðan og flöskulaus í þokkabót. Við keyrðum síðan heim í steypiregni og vorum komin heim á sæmilega skikkanlegum tíma.