Fimmtudagur 14. mars 2002
Ragn og bölv
Ég skilaði af mér lokaverkefni númer eitt í gær. Þurfti reyndar að búa til eina aukamynd en svo skilaði ég þessu inn. Svo byrjaði ég að lesa mér eitthvað til um hitt lokaverkefnið – en það gekk heldur hægt.
Í dag var síðan síðasti kennsludagur hjá mér! Núna er ég búin í öllum tímum og bara eftir að gera síðasta lokaverkefnið í radarkúrsinum með henni Kerri. Það á nú eftir að vera eitthvað skrautlegt, því við erum báðar orðnar örþreyttar á þessu öllu saman og samstarfið hefur ekki alveg náð að smella saman. En það er vonandi með smá svefni og rísandi sól að það lagist. Nú er staðan hins vegar sú að klukkan er ellefu á fimmtudagskvöldi og við erum hérna báðar að reyna að lesa okkur til. Við erum ekki ennþá búnar að hanna kerfið okkar – og í raun ekki byrjaðar á því – og svo eigum við eftir að gera fullt af aukadrasli. Verkefnið á að vera tilbúið á mánudaginn næsta á hádegi.
Og þá er ég líka búin! 🙂
Það er ekki svo gott hjá Augusto greyinu… Hann á að skila lokaverkefni á morgun sem er ekki farið að virka almennilega ennþá. Svo á hann að skila öðru á sunnudaginn, og á mánudaginn fer hann í tvö lokapróf, annað rétt á eftir hinu. Svo held ég að hann eigi að skila einhverju á þriðjudaginn og á miðvikudaginn á hann að halda kynningu á öðru verkefninu sínu. Ef ég væri hann þá væri ég löngu brostin í grát núna!