Föstudagur 19. apríl 2002
Skrifræði lýkur
Í dag fyllti ég út síðustu eyðublöðin sem ég þarf að fylla út þar til við förum til Íslands. Það síðasta á listanum var að skrifa til IIE sem er stofnunin sem “sér um” mig og mitt landvistarleyfi fyrir hönd Fulbright. Annars vegar þurfti ég að fylla út árlega skýrslu um hvað ég var að gera síðasta árið og síðan tilkynna þeim að ég sé “að fara” og fylla út “final report”. Málið er sem sagt að ég er að færa mig frá Fulbright landvistarleyfi yfir á Stanford landvistarleyfi sem ég get gert því ég fæ Mastersgráðuna í sumar og er því að byrja á nýju “prógrammi”, þ.e. doktornum.
Ástæðan fyrir því að ég er að skipta um “sponsor” (eins og það heitir) er að Stanford gefur mér landvistarleyfi til 5 ára (til ársins 2007, sem er frekar “scary”!) í staðinn fyrir að fá eitt ár í einu frá Fulbright. Afleiðingin af Fulbright kerfinu er það að Finnur hefur bara fengið atvinnuleyfi í nokkra mánuði í einu því hann fær atvinnuleyfi í jafn langan tíma að ég er með landvistarleyfi og það tekur INS alltaf 5 mánuði að afgreiða vinnuleyfisumsóknina!
Sem sagt, vonin er sú að Finnur fái núna atvinnuleyfi sem gildir í heilt ár (það mun vera hámarkið) og þannig ætti skriffinskan í okkar lífi og stressið yfir atvinnuleyfinu að minnka. Eða það vona ég amk! 🙂
Annars var dagurinn atburðasnauður… nei reyndar! Klukkan 6:10 í morgun hringdi síminn og það reyndist vera Flugleiðaskrifstofan í Bretlandi þar sem ég keypti miðana til Íslands. Þeir voru að reyna að fá American Express kortið mitt til að virka en það gekk ekki. Ég gaf þeim því upp íslenska Eurocard kortið mitt og sagði bless. Síðan hringdi ég í American Express. Þar kom í ljós að “www.cheaptickets.com” var að rukka mig tvisvar fyrir Bretlandsferðina og var því búið að þurrka upp heimildina mína! Ég hringdi í CheapTickets og beið eftir að fá samband í 20 eða 30 mínútur. Í ljós kom að ég hafði farið í gegnum pöntunarferlið tvisvar… nema hvað að í fyrra skiptið kom upp villa sem gerði það að verkum að ég þurfti að endurtaka leikinn. Eftir að ég keypti miðana í tilraun tvö þá var CheapTickets ennþá með peninga á “hold” úr fyrri tilrauninni og þar af leiðandi var heimildin mín búin! Sem betur fer tókst að laga þetta og ég fór aftur í rúmið um hálf átta leytið og svaf til um níu. Síðan fór ég í skólann og vann smá fyrir proffann minn í fyrsta skiptið í tvær vikur…
Og já – ég er að taka kúrs sem heitir “Signal Processing Methods in Musical Acoustics“. Í honum þarf ég að forrita í C++ sem ég hef ekki gert síðan í Tölvunarfræði II árið 1997. Þar af leiðandi er greyið Finnur búinn að vaka með mér til klukkan 2 um nóttina þrjár nætur í röð og hjálpað mér að gera fyrstu tvö verkefnin. Í gærkvöldi tókst okkur lokins að fá “Lab #2” til að virka og það var mikil gleði. Nú er bara að gera restina af “löbbunum”! 🙂