Fimmtudagur 25. apríl 2002
Rétt skal vera rétt skal vera…
Ég byrjaði daginn á því að hjóla í skólann (30 mínútur á hjóli í hrunhættu) eins og ég gerði í gær. Það reyndist ekkert vera neitt sérstaklega góð hugmynd því þar með voru lappirnar búnar með kvótann og ekkert eftir fyrir sundtímann klukkan 10. Ég lifði hann samt af með herkjum og hélt niður í skóla til að prófa að prenta út myndir á bleksprautuprenturunum á skrifstofunni okkar. Málið var nefnilega að ég fékk myndir úr “framköllun” frá fæðingarkvöldi Sigtryggs og var frekar óánægð með litina. Eftir að hafa borið árangurinn saman þá stend ég frammi fyrir þessu týpíska “engineering tradeoff”… annaðhvort hef ég myndir sem eru “smooth” (þ.e. engar doppur/pixels sjáanlegar) en með döprum litum, eða ég get prentað myndir með doppum en betri litum. Andvarp!
Hvað um það – aðal umræðuefni dagsins var lausn á einu heimadæminu fyrir kúsinn sem ég er að tí-ei-ja (TA = Teaching Assistant). Ég var eiginlega alveg handviss um að lausnin frá prófessornum væri vitlaus (mig grunaði það líka í fyrra þegar ég tók kúrsinn, en gerði ekkert mál úr því þá), þannig að ég ræddi það við prófessorinn. Hann var ekki búinn að ná að íhuga þetta þegar kom að “office hours” hjá mér (þá situr maður inni í herbergi og hjálpar nemendum með heimadæmin) þannig að ég varð að segja þremur nemendum að ég héldi að þetta væri svona… en að það væri ekki alveg komið á hreint… og að ég myndi senda þeim tölvupóst ef þetta væri vitlaust hjá mér. Að lokum, eftir mikið japl jaml og fuður samþykkti prófessorinn að ég hefði líklega rétt fyrir mér og lagaði lausnirnar. Eini gallinn er sá að hann er örugglega búinn að setja þetta dæmi fyrir í einhver ár – og alltaf hafa nemendur verið að fá vitlaus svör!
Eftir þetta (og önnur tilvik þar sem ég hef verið að leiðrétta lausnirnar hjá honum) er hann farinn að segja að honum finnst sem við séum gift því ég nöldra svo mikið í honum! 🙂