Mánudagur 27. maí 2002
Frí í dag
Í dag er Memorial Day, þar sem Bandaríkjamenn minnast hins látna hermanns, og því var frí hjá okkur báðum í dag. Hins vegar sýndist mér sem að allar verslanir væru opnar…
Saumi, saumi
Saumavélin hennar Soffíu er forláta Pfaff vél sem gengur fyrir 220 volta rafmagni. Þar af leiðandi fengum við líka lánaðan hjá henni alveg massívan spennubreyti svo að vélin myndi nú ganga almennilega, enda er 110 volta rafmagn í Bandaríkjnum. En þegar ég stakk heila klabbinu í samband þá bara gerðist hreinlega ekki nokkur skapaður hlutur, og eftir smá fikt kom í ljós að öryggið var farið. Þá var bara að skipta um öryggi – en það var nú aðeins meira en að segja það því ég hafði ekki hugmynd um hvar svona lítil sæt tveggja ampera öryggi eru seld… Fyrst fór ég í Walmart þar sem mér var sagt að fara í bílahlutabúð. Síðan fór ég heim og náði í Finn og við fórum í bílahlutabúðina þar sem mér var sagt að fara í Radio Shack. Eftir að hafa hringsólað um verslunarkjarnann fundum við hana loksins og öryggið langþráða! 🙂
Þegar heim var komið settist ég við saumavélina og minnkaði sængurverin sem ég hafði keypt of stór í Ikea um árið. Ég er nú ekki þekkt fyrir að vera mikil saumakona, en á sínum tíma saumaði ég nú gluggatjöld fyrir íbúðina okkar heima á Íslandi, og þá kenndi amma mér að þræða þessar maskínur. Það er nefnilega ekkert alltof augljóst. Reyndar er það svo óaugljóst að ég skil ekki hvernig konur geta lært þetta og samt haldið því fram að þær séu ómögulegar í hinu og þessu.
Á meðan ég sat og saumaði þá skrifaði Finnur vefsíður fyrir myndadagbókina.