Miðvikudagur 30. október 2002
Powerpoint-gleði
Hef eytt allt of mörgum klst undanfarna viku í að undirbúa litla tölu fyrir rannsóknarhópinn minn á morgun, um hvað ég hef verið að bralla frá því í mars eða svo. Hef þar af leiðandi aðallega verið í skólanum eða að gera eitthvað skólatengt undanfarið, sem er alveg vonlaust! 😉
Finnur er hins vegar búinn að vera að bralla á fullu. Hann fór með Loga að kafa um helgina í Monterey, á sama stað og við fórum í sjóinn helgina þar á undan. Þar bar það helst til tíðinda að selur beit í aðra blöðkuna hans Loga (!!!) en hvorki selurinn, Logi né blaðkan urðu fyrir nokkrum skaða. Svo hefur Finnur verið á fullu að sjóða saman rás (já, rafmagnsrás með viðnámum, díóðum og transistorum!!) til að tengja nýju köfunartölvuna sína (sem er eins og stórt armbandsúr) til alvöru tölvuna okkar.
Það hefur gengið eitthvað brösuglega, svo hann og Augusto eru búnir að sitja sveittir yfir rásinni síðustu tvö kvöld, mælandi allt milli himins og jarðar, og leitandi á netinu að alls konar upplýsingum um íhlutina. Ég hef nú bara haldið mig í góðri fjarlægð frá þessu – hef svo sem gaman að því að lóða hluti, en ég þurfi að gera annað – eins og að sauma hrekkjavökubúning… 🙂