Mánudagur 13. janúar 2003
EE kvölin, dagur #1
Í dag byrjaði “kvölin” (the quals) í rafmagnsverkfræðinni, eða inngönguprófið í doktorsnám í rafmagnsverkfræði við Stanford. Prófið samanstendur af tíu-mínútna fundum með níu prófessorum sem spyrja spurninga og maður á að svara. Í fyrra tóku 196 manns prófið en í ár virðast ca. 210 ætla að taka prófið, sem er talsvert lægri tala en 270 sem skráðu sig upphaflega (um 80 manns er hleypt í gegn). Til allrar hamingju skreið ég í gegnum kvölina í fyrra sem þýðir að kvölin er nokkuð sársaukalaus fyrir mig í ár… en hins vegar eru nokkrir úr vinahópnum að taka prófið í ár, þar á meðal Sarah, Ana, Erin, Fraser, Shadi og Kamakshi.
Sarah og Ana tóku kvölina í dag – og það gekk upp og ofan hjá þeim báðum eins og vera ber. Niðurstöður verða kunngjörðar á þriðjudaginn eða miðvikudaginn í næstu viku… Erin, Fraser og Shadi taka kvölina á miðvikudaginn og Kamakshi á föstudaginn.
Annars fór dagurinn að mestu leyti í vaskinn, ég fór reyndar í “weight training for women”, gerði smá heimadæmi, en dagurinn fór aðallega í að tala um kvölina og sýna próftakendum stuðning… Um kvöldið náði ég að klára að safna saman öllum þeim myndum af geilsadiskum sem eiga að fylla myndaalbúm #2… á meðan að Finnur spilaði net-tetris á fullu! 🙂