Laugardagur 18. janúar 2003
Blúbb, blúbb dagur
Við vöknuðum klukkan 7 í morgun og vorum lögð af stað til Monterey ásamt Loga klukkan 8. Þar stoppuðum við á Monestery Beach (eiginlega í Carmel sem er næsti bær sunnan við Monterey) og eftir smá selflutning á öllu draslinu frá bílum til strandar (100 metrar), þá skelltum við okkur í sjóinn – í 7 mm þykkum blautbúningum að sjálfsögðu enda sjórinn um 12 stiga heitur á 25 metra dýpi…
Það verður ekki annað sagt en að dagurinn hafi verið “glorious”!! Veðrið var ýkt súper dúper ótrúlega gott, varla öldu að sjá meiripart dagsins, sólin skein, ekki ský á himni og svona 20-25 stiga hiti. Við föttuðum það eftir köfun #1 að það er janúar… JANÚAR!! 🙂
Á sjávarbotni var að finna urmull af krossfiskum í öllum regnbogans litum og munstrum, einstaka krabba, hrúgu af litlum til meðalstórum fiskum í trofum – og svo hápunktur dagsins – eitt stykki sæljón sem synti upp að okkur í báðum ferðunum og lék sér. Alveg ótrúlegt að sjá þetta dýr þjóta um eins og ekkert sé og á meðan er maður sjálfur eins og klunnalegt flykki…
Finnur tók með sér nýju $20 dollara vatnsheldu myndavélina en í fyrri ferðinni gleymdi hann að opna ljósopið áður enn hann fór í vatnið – og í þeirri síðari þá bara vildi hún ekki virka!! 🙁 Við tókum nú reyndar myndir ofansjávar með hinni vélinni líka – og það koma vonandi myndir á vefinn von bráðar.