Þriðjudagur 22. apríl 2003
Skrifræði dauðans
Hún Sarah fór til DMV (Department of Motor Vehicles) í dag til að taka skriflega bílprófið því hana vantar kalifornískt ökuskírteini til að kaupa bíl – og sem almennt persónuskilríki. Þetta var í annað skipti sem hún fór til DMV í þessum erindagjörðum, því í fyrra skiptið var henni neitað um að taka prófið því hana vantaði fæðingarvottorð. DMV neitaði sem sagt að taka mark á gamla norður-karólínska ökuskírteininu hennar og líka fæðingarvottorðs”kvittuninni” sem hún hefur notað allt sitt líf sem “fæðingarvottorð”. Merkilegt nokk þá hefur Sarah heldur aldrei eignast/sótt um bandarískt vegabréf frekar en margir aðrið kanar – en til þess þarf maður einmitt líka fæðingarvottorð.
Hvað um það, Sarah sótti því um að fá fæðingarvottorðið sitt sent frá Vestur-Virginíu (þar sem hún er fædd) og tveimur vikum seinna barst það í pósti. Hún fór því sigri hrósandi til DMV í dag – og þeir neituðu henni AFTUR um að taka prófið því fæðingarvottorðið (öllu heldur ljósritið af fæðingarvottorðinu – á opinberum pappír með lyftum stimpli) var ekki tekið gilt!! Kemur í ljós að einhver álfurinn í Vestur-Virginíu vélritaði vottorðið, en skrifaði síðan OFAN Í annað hvort afritið eða vélritið sjálft bæði eftirnafnið hennar og líka fæðingardaginn hennar. Í DMV í dag var henni sem sagt sagt að ef hún myndi leggja inn þetta fæðingarvottorð þá yrði það rannsakað sem “fraud” og hún fengið ökuskírteinið eftir einhverja mánuði…!!!
Það fyndnasta við þetta allt saman er að HVER SEM ER getur skrifað bréf og beðið um að fá sent fæðingarskírteini (eða afrit af skírteininu) því að sjálfsögðu eru engin rithandarsýnishorn geymd fyrir fæðingarvottorð, né myndir. HVER SEM ER getur sem sagt beðið um skírteini á hvaða nafni sem er (að því gefnu að maður falsi undirskriftina) og mætt í DMV og fengið útgefið ökuskírteini sem er tekið gilt alls staðar sem persónuskilríki.
Og til að gera söguna ennþá betri – þá bentu þeir hjá DMV henni á að sækja um vegabréf fyrst því þeir hjá vegabréfaútgáfunni líta víst ekki eins gaumgæfilega á fæðingarvottorðin og þeir hjá DMV!!!!!