Miðvikudagur 23. apríl 2003
Ég beyglaði dekkið mitt!!!
Ég er búin að vera rosalega dugleg við að hjóla í og úr skólanum þessa vikuna (30 mínútur hvora leið) og er næstum því orðin útitekin!! Í dag var ég einmitt að hjóla heim og skellti hjólinu helst til harkalega niður við ein ljósin (þurfti að snúa hjólinu um 90 gráður til að passa inn á hjólaakreinina). Nema hvað að þegar ég legg af stað á grænu ljósi þá sé ég á milli lappanna á mér að afturbremsurnar fara á þvílíka fleygiferð í hvert skipti sem afturdekkið snýst einn hring… Ég auðvitað stoppaði og hvolfdi hjólinu og þar sem ég er að reyna að sjá hvort eitthvað hafi losnað, stoppar gæi við hliðina á mér og spyr hvort mig vanti skiptilykil. Ég hafði nú bara enga hugmynd um hvað væri að (datt ekki hug að maður gæti beyglað dekkið!!) þannig að gæinn steig úr bílnum og sá strax að dekkið var ekki lengur alveg beint.
Í ljós kom að hann var ekki með sexkant til að losa um bremsurnar – en hann bauð mér símanúmer hjá vini sínum (einhver heimilislaus náungi, besta skinn víst…) sem gæti reddað mér nýju dekki á spottprís í staðinn fyrir að borga of-fjár hjá “alvöru” hjólaviðgerðarbúllum!! Ég brosti og þakkaði pent fyrir mig og sagðist nú bara ætla að hjóla heim, þegar hann minnti mig á að það var hjólabúlla rétt hjá. Ég hjólaði þangað og gæinn það lambdi til dekkið og skipti um teina (tveir brotnir – og í hamaganginum losnuðu 5 í viðbót) fyrir $15 sem mér fannst nú bara ok.
Nú er bara að vona að hjólið endist út sumarið – enda eins gott því ég var að skrá það (maður þarf að skrá hjól í Kaliforníu og líma númeralímmiða á það – og af því að þeir hjá umferðardeildinni í Stanford eiga of mikla peninga, þá fær maður líka tvö hjólaljós og endurskins-ól til að halda buxnaskálminni fyrir að skrá hjólið!) og smyrja það eftir veturinn…! 🙂