Fimmtudagur 24. apríl 2003
Réttlætanlegt?
Ég uppgötvaði í dag að við höfðum misst af japönsku teiknimyndinni Spirited Away í bíó – en að hún væri komin út á vídeóleigur í staðinn. Okkur Augusto langaði heilmikið til að sjá myndina (Finnur var í vinnunni og missti því af æsingnum) og því hringdi ég í a.m.k. 10 vídeóleigur og spurði hvort þeir ættu myndina á DVD disk. Í ljós kom að hver einasta vídeóleiga hafði bara fengið u.þ.b. 3 eintök af myndinni – og þær voru allar í útláni!!! (Það var hægt að fá myndina á vídeóspólu, en hver leigir vídeóspólur í dag?!?!)
Þegar ég sá hvað þetta gekk illa þá kveikti ég á kazaalite og viti menn, eftir rúma klst var myndin komin í heild sinni (640MB) á harða diskinn hjá mér (þökk sé kick-ass tengingu við einhvern í UCLA). Við brenndum myndina á disk, fórum heim og Augusto tengdi tölvuna sína við sjónvarpið okkar og við horfðum á myndina sem var fínasta skemmtun. 🙂
Nú er spurningin – er réttlætanlegt að “stela” myndum, ef aðrar leiðir til að fá myndina “löglega” virka ekki? Það skal tekið fram að á vídeóleigum þá er myndin leigð út í átta daga í einu (stórfurðulegt kerfi) og því lítið um að myndin væri “rétt ókomin” (nema á einni leigu). Mitt mottó hefur yfirleitt verið að ef ég hef þegar borgað fyrir að sjá myndina í bíó eða á leigu, þá hef ég líka borgað fyrir að sækja hana á netinu… Ef ég hins vegar vil fá aukaefni og rosa-góð gæði þá mögulega kaupi ég líka DVD diskinn (eins og fyrir Fellowship of the Ring – sem var fyllilega þess virði með 4 klst af aukaefni!!).
Sama finnst mér gilda um sjónvarpsþætti… Við borgum himinhá afnotagjöld í hverjum mánuði svo ég tel mig vera í fullum rétti þegar ég næ í Buffy, Angel, Everwood, Enterprise, Sex and the City og/eða Sopranos þætti. (hmm… þeir tveir hinir síðasttöldu eru reyndar á gráu svæði því við erum ekki áskrifendur að HBO…).
Any thoughts? 🙂