Þriðjudagur 6. maí 2003
Möffins-dagur
Þetta er nú búinn að vera meiri dagurinn… Byrjaði á því að hlusta á doktorsvörn klukkan 9 um morguninn. Við hlustuðum á sama fyrirlesturinn í síðustu viku á “hópfundi” (group meeting) og þá var hann algjör hörmung. Eftir þann fyrirlestur eyddum ég og nokkrir aðrir tæpum 2 klst í að tala yfir hausamótunum á fyrirlesaranum til að útskýra hvað mætti betur fara – og útkoman í morgun var alveg draumur í dós. Til að bæta punktinum ofan á i-ið, þá bauð hann líka upp á heimabakaðar “möffins” sem voru afar góðar! Útkoman var sem sagt sú að hann stóðst prófið! 🙂
Eftir hádegi fór heldur betur að halla undan fæti. Ég nefnilega vaknaði um 5 í morgun (þurfti á fara á klóið en nennti því ekki… lá því mill svefns og vöku í klst áður en ég skakklappaðist á lappir… og gat svo ekki sofnað aftur því það var svo bjart inni í herberginu!!!!) – og það kom illilega í ljós að 5 tíma svefn dugar mér illa! Ég sofnaði næstum í tíma og svo þegar ég mætti aftur á skrifstofuna hélt ég varla haus. Ég ákvað því að fara snemma heim – hjóla í lestina og hjóla svo heim.
Þá vildi ekki betur til en að það byrjaði að rigna (stórir grófir dropar, en ekki mjög margir) akkúrat þegar ég stíg út undir bert loft og þegar ég kom loksins á lestarstöðina var tilkynnt að lestin væri 30 mínútum of sein!! Ég hjólaði því barasta alla leið heim (sem tók 30 mínútur) í rigningu og smá vindstrekking. Oh, hvað það var gott að kúra undir sæng og lesa Time áður en það slökknaði á mér… 🙂