Laugardagur 7. júní 2003
Mannamótadagur
Í dag hittum við heldur betur mikið af fólki! Klukkan eitt eftir hádegi fórum við í 7 ára afmæli til Kristborgar þeirra Elsu og Þráins (sem eru því miður (fyrir okkur!) að flytja aftur heim til Íslands eftir viku) og þar var heldur betur margt um manninn og afskaplega góðar kökur! 🙂
Eftir afmælið þá var tveggja tíma stopp heima, þar sem ég skellti loksins tveimur nýjum myndavefsíðum upp (bara mánaðargömlum – ahemm) og síðan lá leiðin í “End of Quarter” partý hjá Dick Simpson, sem vinnur hjá Stanford í rannsóknargrúppunni minni. Það var voða fínt að hitta fólkið úr skólanum ekki í skólanum heldur í “eðlilegu umhverfi” svona til tilbreytingar!
Að grúppuboðinu loknu lá leiðin svo til Elsu og Þráins (aftur!) þar sem við horfðum á Íslenska drauminn, já eða þar til rispurnar í DVD disknum (sem Soffía og Ágúst eiga) fóru heldur betur að láta á sér að kræla. Við sem sagt náðum að þeim parti þar sem konan var að fara að flytja til USA, en eftir það hoppaði diskurinn bara á milli atriða og neitaði að spila neitt af viti! Eftir að Íslenski draumurinn hafði gefið upp öndina var síðan komið að Hafinu, en þar sem við erum nýbúin að sjá hana, þá buðum við góða nótt og fórum heim að lúlla… 🙂