Lítið um blogg
2010-04-14Uncategorized Standard
Hér hefur verið heldur hljóðlegt undanfarið. Hef verið annars hugar við að undirbúa flutningana, fá fólk í heimsókn til að taka út búslóðina fyrir flutningstilboð, skoða húsnæði á Íslandi, lesa bækur sem gerast langt langt í burtu í öðrum veruleikum og svo framvegis. Við erum búin að kaupa okkur miða til New York þann 15. júní og svo áfram til Íslands 23. júní. Ætlunin er að dvelja í New York í viku og skoða borgina, en ég hef aldrei komið þangað. Allar tillögum um gististaði og hluti til að skoða eru vel þegnar.
Af heimilismeðlimum er það að frétta að Anna er í vikulöngu vorfríi þessa vikuna, og við erum of nísk til að borga hana inn á eitthvað námskeið. Hún fékk því að láta sér leiðast með mér á mánudeginum og í gær (þá var reyndar fullt heimsóknarprógramm eftir hádegi). Svo varð Bjarki (aftur) veikur í gær, með 39.1 C hita – gaman, gaman. Þau náðu sem sagt tveimur heilum skólavikum án veikinda, vííí! Við létum athuga eyrun og taka streptókokkapróf í morgun, og allt var í lagi, þannig að þetta er bara enn einn vírusinn. Nú undir kvöldmatarleyið er hann allur að koma til. Finnur er jafnlyndur að vanda og ég kvarta og kveina yfir öllu sem þarf að gera og þessum endalausu veikindum – já, og borðkrókum í eldhúsum á Íslandi, grrr.
Mesta spennan undanfarið hefur verið í kringum þvottabjarnarmóður sem gerði sér hreiðurstað uppi á háalofti, en flutti sem betur fer ungana út (nema einn, hann fór í skýli) þegar henni fannst ungunum ógnað þarna uppi af heimsókn meindýragæjans. Svo munu rottur vera að rangla inn og út, við höfum heyrt af og til í einhverju dýri í falska loftinu fyrir ofan eldhúsið, en ekki séð neitt. Leigusalinn hefur lofað að laga það sem hægt er að laga svo þær komist síður inn.