Laugardagur 27. september 2003
Ég gefst upp!
Í dag gafst ég endanlega upp fyrir þröngum buxnastrengjum og litlum brjóstahöldum (já, brjóstin vaxa líka!) og fór í Target og keypti mér mín fyrstu óléttuföt, tvennar buxur og þrenn íþrótta-“höld” 😉 Mér til nokkurrar gleði fékk ég ágætis svartar buxur á $25 dollara og svo extra þægilegar íþróttabuxur á $15. Húrra fyrir stórmörkuðum! 🙂 (Fyrir þá sem eru búnir að missa töluna, þá er ég komin 26 vikur á leið, eða tæpa 6 mánuði).
En það var ekki mín eina uppgjöf í dag, því ég gafst líka upp á útlensku uppskrifabókunum okkar og eldaði kvöldmatinn (kjötbollur með brúnni sósu og kartöflum) upp úr al-íslensku bókinni “Maturinn hennar Mömmu” sem við fengum í jólagjöf frá mömmu minni fyrstu jólin okkar hérna úti! 🙂 Ég meina, það er voða gaman að elda fínan “exótískan” mat – en ég er bara orðin svo þreytt á því að lesa uppskriftir þar sem nafnið meikar ekki einu sinni sens! Hvað í ósköpunum er t.d. “Orecchiette with broccoli rabe”?!?! Hitt böggið er að leita uppi undarleg hráefni eins og “cornichons” eða “pancetta”…
Nei, í staðinn þá reyndi ég fyrir mér sem íslensk húsmóðir og steikti mínar allra fyrstu kjötbollur í áraraðir, og þær tókust bara nokkuð ágætlega. Ég reyndar saka bókina um að villt fyrir mér og sagt mér að setja of mikinn vökva í bollurnar svo þær voru helst til lausar í sér, en þetta bragðast ok, sem er víst fyrir öllu! 🙂 Nú er stefna sett á að búa til grjónagraut (annað íslenskt sérfæði sem ég sakna) og jafnvel bláberjagraut! 🙂