Miðvikudagur 15. október 2003
Langur dagur
Ég er nú heldur betur búin að standa í ströngu í dag!! Morguninn fór í að undirbúa hádegisafmælisveislu (kaupa gjafir og köku) fyrir Kerri sem átti 25 ára afmæli í dag (Happy 25th Birthday Kerri!!). Síðan tókst mér loksins að snúa upp á höndina á sjálfri mér til að fara að kíkja á gagnaskrá á stórfurðulegu formi frá einum gæjanum hérna á hæðinni (ég er bara búin að taka mér 2 vikur í að mana mig upp í það) og eftir mikið japl jaml og fuður tókst að lesa gögnin inn í excel svo vel væri, og þaðan inn í Matlab. Nú er bara að fara að kíkja á þau af alvöru. Að því loknu hélt ég svo dæmatíma í rúma 1 og hálfa klst þar sem ég stóð upp við töflu og sagði nemendunum hvernig ætti að leysa heimdæmin sem þau eiga að skila á morgun.
Ég var ekki búin fyrr en um hálf-átta leytið og þá fór ég og náði í Finn í vinnuna. Kvöldmaturinn var hálfur Subway og súrmjólk, síðan smá afslöppun með Time sem kom í dag en svo þurfti ég að demba mér í að undirbúa fyrirlesturinn sem ég á að halda klukkan 9 í fyrramálið í klst og kortér. Núna er klukkan sem sagt orðin 00:11 og ég við það að hrynja í rúmið. Ahhh… það hljómar vel! 🙂 Góða nótt! 🙂