Mánudagur 20. október 2003
Verð að muna að anda
Ég vakti til hálf tvö í nótt að skrifa mótmælabréf til spítalans út af því að þeir eru endanlega að vísa öllum ljósmæðrunum á dyr um áramótin, og var síðan að stressast yfir því að laga það með Finni og prenta út í morgun, svo ég gæti skilað því inn um leið og ég færi í skoðun. Það kom heldur betur í ljós að svona hegðun borgar sig ekki því ég mældist með 84/148 í blóðþrýsting (í staðinn fyrir 70/130 sem er það sem ég hef mælst með hingað til) sem er allt of hátt… 🙁
Sem betur fer samþykkti ljósan að mæla mig aftur nokkru seinna og eftir smá jógaöndun var ég komin í 84/131. Til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi var ég svo send í blóðprufu (jei!) og sagt að koma aftur í skoðun eftir viku. Nú er sem sagt markmið vikunnar að vera ekki stressuð, en það er svoldið hægara sagt en gert því ég þarf að flytja fyrirlestur fyrir rannsóknarhópinn á fimmtudaginn, semja eitt dæmi fyrir miðsvetrarpróf í radar-kúrsinum og svo er miðsvetrarpróf í geimkúrsinum á föstudaginn. Svo ætla ég að halda saumaklúbb á föstudaginn, en ég hlakka nú bara til þess! 🙂
Það góða er hins vegar að eftir þessa viku þá ættu hlutir að detta í hálfgert dúnalogn. Núna er bara að vona að maður smitist ekki af gubbupestinni sem er búin að vera að ganga…