Sunnudagur 26. október 2003
Kafað af nýrri strönd
Okkur tókst ekki að komast út úr íbúðinni í gær, því Augusto og Sarah birtust óvænt um kaffileytið til að hjálpa til við að klára saumaklúbbsleyfarnar, og þau fóru ekki fyrr en um miðnætti! 🙂 Við settum því bara risaviftuna í gang og þetta varð allt í lagi.
Í dag var skriðum við hins vegar snemma á lappir (klukkan 8 á gærdagstíma, en 7 á þessumdagstíma – þeir voru að breyta klukkunni um klst) og keyrðum til Monterey. Þar kafaði Finnur með Loga og strák sem heitir Brian frá McAbee-strönd í miðbæ Monterey, og á meðan lágum við Tassanee á ströndinni og lásum bækur og höfðum það gott undir sólhlífinni. Merkilegt nokk mundum við líka eftir að bera á okkur sólaráburð, svo við erum ekki eins og karfar akkúrat núna.
Þeir félagar köfuðu tvisvar, og það bar hæst að í fyrri köfuninni komu fjórir selir og léku sér við þá félaga, nörtuðu í blöðkurnar og léku sér í þaranum. Finnur náði alveg frábærum vídeómyndum af selunum, sem vonandi komast á netið fljótlega! 🙂 Annars leit ekki vel út með myndatökur í upphafi köfunarinnar því það myndaðist víst mikil vatnsgufa innan á myndavélakassanum, beint fyrir framan linsuna svo allar “still” myndirnar voru hálfónýtar… Vatnsgufan hins vegar hvarf einhverra hluta vegna og því eru selamyndirnar alveg stórfínar, Finni (og mér, strönduðum hvalnum) til mikillar gleði! 🙂