Föstudagur 14. nóvember 2003
Að dúla eða ekki dúla
Við Finnur fórum í kvöld á svokallað “Meet the Doulas Night” hjá Blossom Birth (sem er staðurinn þar sem við erum á barnseignarnámskeiði og ég fer líka í jóga þar). Fyrir þá sem eru ekki inni í “lingóinu”, þá eru doulur (dúlur) konur sem maður ræður í vinnu við að hjálpa manni að ganga í gegnum fæðinguna – sem er nokkuð sem vinkonur eða kvenkyns fjölskyldumeðlimir eru oft kallaðir til (en það er erfitt þegar maður býr í útlöndum). Maður hittir dúluna sína fyrir fæðingu til að ræða hvernig maður vilji helst hafa þetta, hún spyr spurninga um hvernig maður slaki helst á o.s.frv. Síðan þegar kemur að fæðingunni, þá kemur hún heim til manns þegar hríðirnar hefjast og hjálpar við að gera það allt saman sem bærilegast (mismunandi stellingar, heitir/kaldir bakstrar) og hjálpar til við að segja til um hvenær sé gott að fara á spítlann. Þegar á spítalann kemur þá er dúlan með manni allan tímann og hjálpar til við að túlka það sem fram fer og vera til staðar allan tímann. Eftir fæðingu kemur hún svo í heimsókn einu sinni til að athuga hvernig gengur.
Sum sé, þetta er lausn “samfélagsins” við því að hjúkrunarfólk er alltaf á þönum og á vaktaskiptum, og því að það sé sífellt algengara að fólk búi langt í burtu frá mæðrum sínum og öðrum sem myndu annars vera viðstaddir fæðinguna… Að sjálfsögðu kostar þetta sitt, við heyrðum verð á bilinu $600 til $1200 per fæðingu, en á móti kemur að fólk sem hefur verið með dúlu er víst voðalega ánægt með það, sérstaklega feðurnir sem eru þar með undir minni “pressu”.
Það er skemmst frá því að segja að við hittum eina sem okkur leist báðum ágætlega á, en ég er ennþá ekki viss hvort ég vilji dúlu eða ekki. Það togast á í mér að maður eigi ekki að þurfa að borga fyrir að eignast börn, að maður sé bara að pjattrófast því fullt af börnum fæðast án aðstoðar dúlu og hvort það sé sniðugt að vera með svo gott sem ókunnuga manneskju inni hjá sér í lengri tíma… Kvöldið var sem ágætlega fróðlegt og sniðugt, þó ekki nema vegna þess að þar með poppuðu upp alls konar spurningar sem við vorum ekkert farin að pæla í. Nú er bara að spurningin, “á að dúla eða ekki dúla”?!?!