Sunnudagur 16. nóvember 2003
Afmælishelgi
Þetta er búin að vera rosaleg afmælishelgi! Á laugardaginn fórum við í fertugsafmæli til Eggerts og þar var mikið um dýrðir! Það vildi svo ótrúlega heppilega til að einhver snillingurinn bauð upp á beint flug milli Keflavíkur og San Francisco (dvalið frá þriðjudegi til þriðjudags) og stukku foreldrar bæði Eggerts og Jónínu á þann díl, og líka þrjár systur Eggerts. Það var því margt um manninn í veislunni og ræða/söngur þeirra systra Eggerts verður lengi í minnum höfð! Gaman að hitta á svona tónelska fjölskyldu! 🙂
Á sunnudeginum var svo 2ja ára afmæli Ágústs Bjarka þeirra Soffíu og Ágústar, svo við Finnur keyrðum í “sveitina” til þeirra (við sáum kýr á leiðinni!) og hámuðum í okkur kökur annað gómgæti á meðan börnin léku sér. Ágúst Bjarki var hinn kátasti og var snöggur að skilja að hann ætti pakkana og að bara hann mætti taka utan af þeim, en enginn annar… 🙂