Mánudagur 17. nóvember 2003
Sama sagan
Ég fann það í gær að hugrekkið gagnvart spítalanum hefði dvínað talsvert frá því í síðustu viku (þegar ég valsaði inn á þriðjudegi og mældist með eðlilegan blóðþrýsting) og það stóð heima, blóðþrýstingurinn mældist himinhár í skoðuninni í morgun – og það hefur örugglega ekki hjálpað að ég lá andvaka í rúminu frá því klukkan fimm í morgun. Í andvökunni stóð ég mig að því að prófa mig áfram með alls konar “staði” til að róa mig, t.d. var ég mikið í Þórsmörk í nótt, eitthvað á Laugarvatni, en það virkaði lítið… íslenskt landslag er í líklega aðeins of kyngimagnað til að vera róandi! Svo reyndi ég að syngja sjálfa mig í svefn í hljóði, en það gekk ekki heldur! Betur má ef duga skal, og það skal hafast! 🙂
Hvað um það, ég var sem sagt búin að mæla mig amk þrisvar áður en við fórum á spítalann (og amk tvisvar á dag í heila viku), og var að meðaltali 129/81, og það ásamt Excel grafinu fína, sagði ljósunni að ég væri greinilega með akút “white-coat-hypertension” (þ.e. læknafælni) en ekki einhverja meðgöngueitrun. Hún sagði mér því bara að halda áfram að fylgjast með þrýstingnum, taka því rólega og koma aftur eftir tvær vikur, en þá vill hún endurtaka blóðrannsóknirnar og það. Ég þarf sem sagt ekki að mæta í næstu viku!! Jibbíí!! 🙂
Annars er það í fréttum að bumbufrúin er “loksins” kominn upp í rifbein (ég er komin 33 vikur á leið) og því von á að bumban farin að vaxa enn meir út á við en verið hefur. Bumban mældist 32,5 cm frá toppi til táar í morgun, sem mun víst vera alveg svaðalega “normal”… 🙂