Sunnudagur 23. nóvember 2003
Slæmt í sjóinn
Við vöknuðum klukkan 06:20 í morgun og keyrðum sem leið lá suður til Monterey. Þegar þangað var komið um áttaleytið kom í ljós að það var ekki gott í sjóinn, slatta öldugangur (sem gerir köfurum erfitt fyrir að ganga til sjós og koma sér aftur á þurrt land án þess að slasa sig eða týna græjum) og lítið skyggni víst í sjónum, svo við fengum okkur morgunmat og kíktum síðan aftur á ástandið. Ef eitthvað var þá hafði hert vind og þar með öldurnar líka, svo köfun dagsins var aflýst.
Þar sem það var skítakuldi (það fór niður í 1°C í nótt) þá ákváðum við að sleppa öllum rómantískum göngutúrum og héldum heim á leið – en stoppuðum í Gilroy Outlet Mall á leiðinni. Þar tókst að finna nokkrar jólagjafir, en merkilegast af öllu fundum við tvenna strigaskó á Finn (sem hefur ekki keypt nýja skó í örugglega tvö ár…) og tvennar buxur líka! Nú er hann barasta eins og nýr maður! 🙂
Um kvöldið buðu Tassanee og Logi okkur í allsherjar “sausage” kvöldmat – og síðan var horft á Matrix #2 sem þýðir að ég get loksins farið að sjá Matrix #3! 🙂