Mánudagur 1. desember 2003
Ævintýri í spítalalandi
Eftir tveggja vikna vel þegið frí frá því að þurfa að mæta á spítalann þá mættum við skötuhjú í morgun í reglubundna skoðun. Fyrir þá sem hafa ekki fylgst með þá byrjaði ég að mælast með of háan blóðþrýsting eftir að þeir létu okkur vita að ljósmæðurnar væru að hætta algjörlega á spítalanum 1. janúar, og að þangað til yrðu þær bara á vakt á virkum dögum milli 8 og 17 á daginn. Þetta olli sem sagt smávægilegri (understatement dagsins) spennu/óvissu um okkar mál og eftir það spennist ég upp í hvert skipti sem ég á að mæta, því ég hef áhyggjur af því að mælast með of háan blóðþrýsting sem ég geri þar með. Til dæmis fann ég alveg spennuna í hausnum í gærkvöldi um leið og ég áttaði mig á því að það væri skoðun morguninn eftir, og átti rosalega erfitt með að sofna, sem er afskaplega óvenjulegt.
Hvað um það. Við sem sagt mættum og fyrsta mæling var 160/88… #andvarp#. Ég var samt þokkalega glöð að neðri talan fór ekki yfir 90 sem er í fyrsta sinn í langan tíma sem það gerist. Efri talan talan hins vegar var nýtt hæðarmet fyrir mig… Í seinni mælingu lækkaði efri talan aðeins – en samt ekki nóg. Það er því búið að búa til fyrir mig heilmikið prógram (þar með eru komnar “afleiðingarnar” sem eru kannski það sem ég óttast alltaf, og það stressar mig ennþá meira upp… gaaaa!!!) Sem sagt, ég var send í “non-stress-test” (NST) þar sem hjartsláttur barnsins er mældur í 20 mínútur til að athuga hvort hann taki ekki kipp þegar það hreyfir sig. Það reyndist allt í fínu lagi þar og lokablóðþrýstingur var að mig minnir um 140/83. Ég á að hins vegar að mæta aftur í NST á fimmtudaginn, og svo mánudaginn og fimmtudaginn í næstu viku.
Til viðbótar við það fæ ég aftur að safna þvagi í plastdúnk í 24 klst frá og með morgundeginum, og því skal skilað inn á miðvikudaginn og þá verða teknar skrilljón blóðprufur. Á fimmtudaginn í næstu viku er svo næsta ljósmæðraskoðun (ég er í lokaprófi á mánudaginn og svo á AGU ráðstefnu í San Fran á þriðjudeginum – og ljósurnar eru ekki með tíma á miðvikudögum) en svo kemur reyndar bónusinn… það á að senda okkur í sónar til að mæla vöxt barnins á fimmtudaginn líka (á eftir NSTinu). Það má því segja að ég sé heldur betur að blóðmjólka þessa blessuðu heilsutryggingu sem ég er með… 😉