Sunnudagur 7. desember 2003
Alvöru karlmenn ganga með kúrekahatta
Jæja, þá er ég (Finnur) lentur og vinnuferðin í karlmannlega fylkinu Texas því formlega hafin. Ég fylgist grannt með því hvað þarf til að teljast alvöru karlmaður og skrái hjá mér allt sem ég læri. Ég er þegar búinn að komast að því að alvöru karlmenn ganga með kúrekahatta, sporta yfirvaraskeggi og tyggja munntóbak. Hreimurinn minn er allur að koma til líka: “How yo’all doing?” 🙂
Vinnuferðin byrjar ógæfulega því að við Mark vorum eltir bókstaflega út um allt af svörtum ketti þegar við gengum um nágrennið að leita okkur að matsölustað eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið. Ég mun því forðast að ganga undir stiga og ganga varlega framhjá öllum speglum næstu daga svo að frekari ógæfa hendi okkur ekki. Kannski best að hafa vaðið fyrir neðan sig og sleppa því með öllu að fara inn á bað næstu daga (til að forðast spegla). Alvöru karlmenn fara hvort eð er ekki í bað nema annan hvern mánuð. (Komið á listann) 🙂