Mánudagur 26. janúar 2004
Nýr Íslendingur, á batavegi
Föstudaginn síðasta fæddist þeim Berglindi og Styrmi undurfagur lítill sonur, að nafni Daníel Andri. Hann var 3 kg (12 merkur) og 51.5 cm langur – en þar sem honum var kippt í heiminn með sogklukku eftir gríðarlega erfiða fæðingu var hann hættur að anda og ekki með lífsmarki. Hann var fljótlega lífgaður við af heilli herdeild af læknum, en eyddi sínum fyrsta degi afskaplega dasaður á gjörgæsludeildinni. Síðan þá hefur hann tekið stöðugum framförum, er afskaplega fallega bleikur á litinn, hreyfir sig vel og orgar eins og ljón, en verður á spítalanum líklega þar til í lok þessarar viku. Sem stendur er hann bara með næringu í æð, því meltingakerfið þarf tíma til að jafna sig eftir sjokkið við fæðinguna, því þegar svona gerist fer allt blóðið til heilans og aðrir líkamspartar verða útundan.
Skiljanlega eru allir búnir að vera í sjokki alveg síðan þetta gerðist, enda svona nokkuð það versta sem getur komið fyrir hverja manneskju. En þetta lítur betur út núna, búið að útskrifa Berglindi og þau búin að fá að halda á Daníel litla, sem er kominn í vöggu í staðinn fyrir að liggja á hitaborðinu. Við hlökkum mikið til að sjá hann í eigin persónu, en það fær að bíða þar til hann er kominn heim og litla fjölskyldan búin að ná að hvíla sig vel og lengi.