Vika 3 hafin
Helgin sem er nýliðin var “löng”, það er þriggja daga. Á mánudeginum var “verkalýðsdagurinn” (labor day), en það fór lítið fyrir hópsamkomum og meira fyrir háum atvinnuleysistölum. Við náðum svolítið að hitta vinafólk okkar, en þess á milli kúldruðumst við heima (hvernig voga vinirnir að vera barasta uppteknir?!) og ég óskaði þess innilega að vera á Íslandi, þar sem maður getur valsað í heimsókn villt og galið með fimm mínútna fyrirvara út um allan bæ.
Í dag rann upp mitt fyrsta barnlausa eftirmiðdegi síðan við komum frá Íslandi, og mikið var það nú gott fyrir líkama og sál. Jú, það hafðist fyrir rest að pota Önnu í eftirskólapössun, og það í þrjá daga í viku, amk til að byrja með, ég bara tími ekki meiru! Hver dagur í viku kostar $150 á mánuði, svo fimm daga gæsla myndi kosta litlar $750 á mánuði eða 93 þúsund isk á núgengi. Þetta er náttúrulega bara klikkun.
Anna var nú ekki á þeim skónum að fara í einhverja eftirskólapössun, með NAP-TIME (hvílutíma), enda var það hennar versti óvinur í gamla leikskólanum. Þegar ég kom hins vegar að ná í hana í lok dags, þá vildi hún helst ekki fara, enda óendanlegt stuð að hitta fullt af nýjum krökkum og leika nýja leiki. Einn af kennurunum sagði reyndar að krakkarnir og hún hefðu eitthvað verið að rugla með hvaða krakka-hóp hún passar inn í, því hún er svo miklu hærri en sam-bekkingar hennar… og bætti því svo við að hann ætlaði að kenna henni körfubolta á morgun… 🙂
Við yfirheyrslu hljómaði það eins og Anna hafi tekið hvílustundina í sátt því hún var víst ofurstutt, miðað við það sem hún var vön. Mér leist hins vegar ekki mjög vel á að hún fékk ekki að borða nestið sem ég sendi með henni, og að eftirmiðdegissnarlið hefði verið saltkex og ávaxtasafi. Hrmmm…
Hvað um það, nú ætlum við að láta á það reyna að ég mæti á skrifstofuna og setjist við mitt rykfallna skrifborð þrjá daga í viku. Ég er svolítið spennt að sjá hvort að ég geti yfir höfuð unnið í heilan dag, enda ekki reynt það í rúm tvö ár. Hins vegar er líka spennandi að ná kannski að hugsa heila hugsun til enda, sem hefur heldur ekki gerst í rúm tvö ár. Á móti ætlar Finnur að keyra Önnu á milli skóla og pössunar í hádeginu, því hann er svo mikil elska. 🙂