Fimmtudagur 8. apríl 2004
Gengið frá
Við sváfum til svona 7 í morgun sem var ágætt. Finnur fór svo í vinnuna, en við mæðgur vorum einar heima. Það var svolítið skrítið að hafa ekki lengur neinn í næsta nágrenni sem vildi fá að halda á og leika við Önnu, en við lifðum samt daginn af. Hún svaf ekki mikið þannig að vonandi sefur hún vel í nótt (hún hrundi í rúmið núna klukkan átta í kvöld).
Annars fengum við eiginlega smá sjokk þegar við settum hana í ömmustólinn sinn í dag – hún hefur vaxið svo mikið!!! Svo er hún miklu duglegri að grípa í hluti eða amk stýra höndunum nokkurn veginn í rétta átt. Á meðan hún lék sér gekk ég frá öllu úr töskunum og merkilegt nokk þá komst allt á leiðarenda óbrotið. Svo þurfti líka að fara yfir póstfjallið sem hafði safnast saman á meðan við vorum í burtu og nú eigum við þrjú fersk Time blöð til að lesa.
Ég hafði samband við prófessorinn minn og þar sem hann er í burtu þá þarf ég ekkert að mæta fyrr en á mánudaginn í næstu viku. Ljúft það.