Fimmtudagur 22. apríl 2004
Loksins myndir
Finnur tók sig til og setti nýja myndir á vefinn áðan. Ég sat og horfði á Angel í sjónvarpinu á meðan. Þetta var annars alveg hýper rólegur dagur. Ég var að tölvupóstast við leiðbeinandann minn, við vorum að hringavitleysast með ákveðið vandamál og héldum að við hefðum fengið út tvo mismunandi hluti. En nei, við vorum með sömu niðurstöðu, sem var ágætt, fyrir utan það að niðurstaðan er heldur ótrúverðug. Oh, well. Merkilegt samt að við virðumst hafa komist að þegjandi samkomulagi um að nota powerpoint til að senda skissur og formúlur á milli.
Anna var sæmilega þæg í dag, svaf heilmikið sem bendir til að hún sé að vaxa. Annars er hún komin með fastan háttatíma – hún hrynur í rúmið milli 9 og hálf tíu á kvöldin. Þá sefur hún í 6 tíma (vaknar milli 3 og 4), drekkur, vaknar stundum klukkan 6 og svo vaknar hún alltaf milli 8 og 9 á morgnana. Þetta þýðir yfirleitt ok svefn fyrir mig, nema þegar ég vaki of lengi. Þá er ég í vondum málum. Sem betur fer hefur mér tekist að leggja mig með henni á daginn, en á móti kemur að þá vinn ég ekki mikið á meðan.